150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

ársreikningar.

447. mál
[14:54]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Í ljósi þess sem hv. þm. Jón Þór Ólafsson nefndi áðan, í sambandi við stjórnarskrárlegt samræmi tveggja mála í hv. atvinnuveganefnd, get ég ekki annað en minnt á það að Alþingi ber að tryggja að lög sem við samþykkjum hér séu í samræmi við stjórnarskrá. Hvers vegna er tilefni til þess að nefna það? Jú, það er vegna stöðu eins og þeirrar sem var talað um hér áðan og vegna þess að hv. þingmaður þarf að koma hingað í pontu til að tilkynna það sérstaklega að orðið verði við óskum um slíkt. Það er að mínu mati alveg sjálfstætt vandamál á Alþingi að í raun og veru er ekki nógu mikið gert úr vangaveltum og vafaatriðum þegar kemur að samræmi við stjórnarskrá. Við eigum að vera með okkar mál alveg skotheld hvað það varðar. (Forseti hringir.) Ég veit að það hafa orðið mistök og ég held að það sé vegna kæruleysis gagnvart því, (Forseti hringir.) og ákveðins trúleysis á, að eitthvað geti hugsanlega verið (Forseti hringir.) spunnið í athugasemdir um stjórnarskrárlegt samræmi.