150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

ársreikningar.

447. mál
[15:01]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég hjó líka eftir því sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson nefndi að forseti þingsins taldi áðan í umræðum að ekki hefðu verið gerðar sérstakar athugasemdir á fundi í gær um dagskrána í dag. Sérstakar athugasemdir, sagði hann. Ég hjó eftir þessu, sérstaklega vegna þess að það er lenska hjá forseta þingsins að orða hlutina þannig að það sé mjög auðvelt að misskilja þá ef hann er síðan spurður. Þetta er stundum kallað útúrsnúningur og ýmislegt annað. Nú veit ég ekki alveg hver munurinn er á athugasemd og sérstakri athugasemd en mér finnst það alla vega mjög sérstakt af virðulegum forseta sem gerir það að verkum að það er erfitt að treysta því sem er sagt. Það þarf einhvern veginn alltaf að passa það og fá skjalfest að skilningur manns á orðum hæstv. forseta sé nákvæmlega í takt við hans eigin skilning. Þetta er sjálfstætt vandamál hér á þingi, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) og ég vildi óska þess að forseti léti af þessum ósið.