150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

uppbygging og rekstur fráveitna.

776. mál
[16:55]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Það var svo stutt á milli ræðna hjá mér að mér gafst ekki svigrúm til að sækja plöggin mín upp á þingflokksskrifstofu. Nú er þetta mál til 3. umr. og mig langar við það tækifæri að fagna þeim áformum sem hér eru römmuð inn sem gera mögulegt að styðja með myndarlegum hætti við fráveituframkvæmdir sveitarfélaga. Þetta er gríðarlega dýrt verkefni fyrir mörg sveitarfélög og í ýmsu samhengi sjá menn ekki vel árangurinn af þessum verkefnum. En hvað umhverfi varðar er árangurinn augljós og uppbyggilegur fyrir hvert svæði til langrar framtíðar hvað umhverfisgæði varðar.

Málið byrjaði þannig að lausnin þótti heldur snubbótt hvað umfangið varðaði. Kannski var hægt að kenna óljósri framsetningu um en eftir að málið hefur runnið fram í umhverfis- og samgöngunefnd held ég að flestir séu býsna sáttir við hver heildarmarkmiðin eru hvað stuðning við það varðar. Sjálfur var ég þeirrar skoðunar að við hefðum átt að innleiða gamla stuðningskerfið sem fólst í því að endurgreiða sveitarfélögum virðisaukaskattinn af þessum fráveituframkvæmdum. Það kerfi var við lýði um árabil og náðist allnokkur árangur í fráveitumálum sveitarfélaga á þeim tíma. En síðan það kerfi rann sitt skeið á enda hefur ekki mikið áunnist þó að vissulega hafi tekist ágætlega til hér og hvar um landið.

Ég vona að með þessu takist að styðja við framkvæmdaplön sveitarfélaga af því að þetta eru framkvæmdir upp á mjög marga tugi milljarða í heildina ef allt er klárað til enda. Á móti slíku þarf auðvitað töluvert svigrúm til stuðnings sem horft er til að verði í heild einhvers staðar í námunda við gömlu virðisaukaskattsendurgreiðsluna. Þetta er önnur lausn kerfislega en niðurstaðan á vonandi að verða hin sama. Hér er t.d. aukið við svigrúm til mats á svæðum þar sem verkefnin eru sérstaklega erfið við að eiga út frá umfangi miðað við fólksfjölda og þar fram eftir götunum.

Ég lýsi yfir ánægju minni með stöðu málsins. Ég sjálfur og hv. þm. Karl Gauti Hjaltason, hinn fulltrúi Miðflokksins í umhverfis- og samgöngunefnd, vorum báðir á nefndarálitinu þegar það var afgreitt í gegnum nefndina. Ég vil óska okkur og öllum sveitarfélögum landsins til hamingju með að vera þó komin þetta áleiðis hvað það varðar að uppbygging fráveitukerfa komist aftur á almennilegt skrið.