150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

712. mál
[17:05]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þennan þingfund sem neinu nemur. Ég vil aðeins að ræða um sjálfbærni í ferðaþjónustunni. Ég vil gjarnan spyrja þessarar spurningar: Er íslensk ferðaþjónusta sjálfbær? Ég svara því neitandi. Ástæðurnar eru einfaldlega þær að enn er þannig um hnúta búið að álag á umhverfi og náttúru landsins er umfram það sem er ásættanlegt í ljósi sjálfbærni. Það er svo sem ekkert óeðlilegt miðað við það að landið er stórt, ferðaþjónustan ný af nálinni og vöxtur hennar gríðarlega hraður. Hvað samfélagslega sjálfbærni snertir þá er hún víða. Við getum sagt að þannig sé það á sumum stöðum og í sumum landshlutum, eða hvernig við viljum nú leggja á það mat. En það eru líka staðir þar sem svo háttar ekki til, þar sem álag á samfélög er umfram það sem þau sjálf hafa sagt að þau þoli. Ef það er rannsakað hlutlægt ætti að koma í ljós að víða er pottur brotinn í þeim efnum. Þegar kemur að hagfræðinni eða peningamálunum, ef við orðum það þannig, höfum við séð að íslenska hagkerfið getur verið í verulegri áhættu þegar kemur að hagrænum ávinningi af ferðaþjónustunni. Hún er veikburða. Fyrirtækin eru lítil. Það eru töluverð merki um að fjárhagsleg sjálfbærni sé ekki heldur fyrir hendi. Þegar allt kemur til alls þýðir það í mínum augum að við þurfum að ákvarða á vísindalegan hátt þolmörk íslenskrar ferðaþjónustu á öllum þessum sviðum. Til þess eru tæki og tól. Það er m.a. nýbúið að þróa mjög áhugaverða sjálfbærnivísa á vegum þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr og þess ráðherra sem um þessi mál fjallar. Fleira er til. Til eru ýmiss konar vísindaleg viðmið og aðferðafræði til að meta hlutlægt þolmörk samfélaga, náttúru og efnahagskerfis í hverju landi fyrir sig.

Ég vil því hvetja til þess að sú vinna verði efld í kjölfar alls þess sem búið er að gera til að efla ferðaþjónustuna í átt til sjálfbærni. Það frumvarp sem hér er til umræðu gerir það svo sannarlega vegna þess að öflugir, opinberir sjóðir eru hluti af lausninni sem varða bætt skilyrði þess að auka við sjálfbærni íslenskrar ferðaþjónustu, þannig að þegar upp verður staðið verður Ísland til fyrirmyndar í þessum efnum.