150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

heilbrigðisþjónusta.

439. mál
[20:19]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég ætla að byrja á því að taka undir orð formanns hv. velferðarnefndar um að æskilegt sé að taka málið aftur til nefndar. Hún vitnaði í hvernig framsögumaður í öðru máli fór yfir það mál mjög vel. Það væri mjög gott að fá slíka yfirferð í þessu máli.

Hér ræðum við um heilbrigðisþjónustu, fagráð o.fl. Ég ætla að byrja á því að nefna Sjúkrahúsið á Akureyri. Í stefnu þess má sjá það markmið að það vill skilgreina sig sem háskólasjúkrahús. Í dag er búið að tiltaka nokkurn fjölda umsagna sem borist hafa þannig að ég þarf ekki að fara yfir það, en ég ætla samt sem áður að leyfa mér að grípa niður í umsögn frá vinnuhópi Sjúkrahússins á Akureyri.

„Í 21. gr. laga um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007 er sjúkrahúsið skilgreint sérstaklega sem kennslusjúkrahús og í nýjum drögum að frumvarpi til laga um breytingu á lögunum“ — sem við fjöllum um hér — „er það óbreytt. Það er mat vinnuhópsins að löggjöfin hefti möguleika stofnunarinnar á frekari framþróun.“

Settur var á laggirnar vinnuhópur á vegum sjúkrahússins og er það mat hans að löggjöfin, sem við samþykkjum hugsanlega hér, hefti möguleika stofnunarinnar á frekari framþróun.

Áður var skilgreining á hlutverki Sjúkrahússins á Akureyri sú að það væri kennslusjúkrahús og það miðaðist við stöðu sjúkrahússins fyrir setningu laganna árið 2007. Í umsögninni segir að starfsemin sé orðin mun umfangsmeiri. Meðal annars fari þar fram göngu- og dagdeildarþjónusta, vísindastarfsemi og að það sinni einnig kennsluhlutverki. Árið 2018 fékk Háskólinn á Akureyri heimild til að vera með doktorsnám. Háskólinn er því núna með nám á öllum þrepum háskólanáms og er vel að merkja gott samstarf á milli Háskólans á Akureyri og Sjúkrahússins á Akureyri.

Ég verð að nefna það sem sagt var í heilbrigðisstefnu til 2030, sem við samþykktum á síðasta þingi og þar sem Miðflokkurinn sat hjá. Þar er talað um að auka þurfi kröfur um gæði og öryggi í heilbrigðisþjónustu. Í umsögninni segir um það:

„Á SAk hafa verið innleiddar markvissar aðferðir gæðastjórnunar til þess að tryggja gæði og öryggi í allri starfseminni og eru þær forsendur þess að sjúkrahúsið er með alþjóðlega gæðavottun á starfsemi sinni. Sjúkrahúsið er fyrsta heilbrigðisstofnunin á Norðurlöndunum til að hljóta slíka vottun. […] Sífellt er lögð áhersla á notkun mælikvarða og gæðavísa til meta gæði og árangur ásamt markvissu umbótastarfi sem grundvallist á nýjustu þekkingu og búnaði. Öflugt vísindastarf og nýsköpun á SAk er leiðarstef í slíku umbótastarfi.“

Mín skoðun er sú að Sjúkrahúsið á Akureyri eigi að skilgreina sem háskólasjúkrahús þar sem vísindastarfsemi er samofin daglegri starfsemi spítalans, samanber skilgreiningu 4. gr. laga um háskólasjúkrahús. Í nýrri stefnu heilbrigðisráðherra í vísindarannsóknum á heilbrigðissviði til ársins 2030 kom fram ákveðinn vilji til þess að jafna aðstöðu vísindamanna á landsvísu og nýta svokölluð samlegðaráhrif til þess að standa sameiginlega að nauðsynlegum innviðum til að styðja við öflugt vísindastarf.

Að mínu viti er Sjúkrahúsið á Akureyri háskólasjúkrahús. Það þarf aðeins að viðurkenna þá starfsemi og hlutverk þess.

Mig langar að koma inn á hvernig heilbrigðisþjónusta er stigskipt, þar sem við fjöllum töluvert um það, og hvernig þeir sem veita þjónustuna sjá fyrir sér það sem við erum að ræða hér. Í umsögn læknaráðs Sjúkrahússins á Akureyri segir, með leyfi forseta:

„Við álítum að þessi skilgreining á þriðja stigs heilbrigðisþjónustu sé ónákvæm og ófullnægjandi, ólíkt skilgreiningum á fyrsta og annars stigs þjónustu í drögunum. Það að skilgreina þjónustuna út frá því að hún sé eingöngu veitt á einni stofnun í landinu, Landspítala – háskólasjúkrahúsi (LSH), eða að hún sé eingöngu veitt í samráði við LSH, teljum við rangt. Hvaða þriðja stigs þjónusta er veitt á Íslandi, hvar og á hvaða forsendum? Gæðaeftirlit með flókinni og sérhæfðri heilbrigðisþjónustu er nauðsynlegt. Hver mun sjá um gæðaeftirlit og skilgreiningu þriðja stigs þjónustu á LSH? Gangi þetta eftir verður LSH og væntanlega forstjóri LSH æðsti og valdamesti aðili hvað varðar þriðja stigs þjónustu á Íslandi. Nær væri að heilbrigðisráðuneytið eða landlæknisembættið bæri ábyrgð á skilgreiningu og skipulagningu þriðja stigs þjónustu. Gangi þessi breyting eftir, hvernig verður þá sú þjónusta sem þegar er veitt, t.d. á SAk metin, endurmetin og endurskipulögð?“

Ég ætla aðeins að skjóta því hér inn að margir sem sendu umsagnir nefndu samráðsleysi. Læknafélag Íslands gerði nokkrar athugasemdir sem ég vil taka undir, sem varða einna helst það sjónarmið sem snýr að breytingu á 4. gr. laganna, sem er skilgreining á því sem kallað er þriðja stigs þjónusta og að hún verði aðeins veitt á háskólasjúkrahúsi eða á heilbrigðisstofnun í samráði við háskólasjúkrahús. LÍ telur að þriðja stigs þjónusta sé einnig veitt á starfsstofum heilbrigðisstarfsmanna. Þar getum við nefnt liðskiptaaðgerðir og tæknifrjóvganir. Læknafélagið bendir einnig á endurhæfingarmeðferð sem veitt er á Reykjalundi og á Heilsustofnun NLFÍ í þessu sambandi. Þetta þarf sem sagt að skilgreina betur.

Mér finnst nokkuð misvísandi og alls ekki skýrt hvað átt er við með því að fjalla aðeins um heilbrigðisstofnanir en ekki sjúkrahús. Viljinn er þá, eins og ég skil þetta, að hafa aðeins eitt háskólasjúkrahús, eitt kennslusjúkrahús, og svo mun restin falla undir heilbrigðisstofnanir, þrátt fyrir að það sé sjúkrahús á Sauðárkróki, svo dæmi sé tekið. Vissulega fellur það undir Heilbrigðisstofnun Norðurlands en samt sem áður er það sjúkrahús. Undir Heilbrigðisstofnun Norðurlands fellur einnig heilsugæslan á Akureyri. Þetta eru tvær jafn mikilvægar stofnanir. Á sjúkrahúsinu á Sauðárkróki er veitt þjónusta á öðru stigi eins og þetta er skilgreint núna.

Einnig vil ég nefna hvernig búið er að finna út, að því er virðist, það sem snýr að fagráðum. Í nefndaráliti meiri hlutans segir, með leyfi forseta:

„Í 13. gr. laganna er kveðið á um skyldu háskóla- og kennslusjúkrahúsa til að vera með starfandi læknaráð og hjúkrunarráð og eftir atvikum önnur fagráð.“ — Þetta á þá við um tvær stofnanir á Íslandi. — „Með 10. gr. frumvarpsins er lagt til að felld verði brott úr lögunum ákvæði um slík fagráð en þess í stað komi þverfaglegt ráð allra fagstétta heilbrigðisstarfsfólks innan heilbrigðisstofnana forstjóra til ráðgjafar og stuðnings, og verður skylda til skipunar sérstaks fagráðs almennt bundin við heilbrigðisstofnanir.“

Mér líst ekki alveg á þessa þróun eða réttara sagt, ég skil ekki alveg á hvaða leið við erum. Er það þá forstjóri sem ber ábyrgð á læknisfræðinni innan stofnananna? Ég spyr. Það skal tekið fram að því var mótmælt í nokkrum umsögnum.

Til upprifjunar hefur verið litið svo á að ábyrgðin væri þrískipt innan heilbrigðiskerfisins. Rekstur er í höndum forstjóra, ábyrgð á lækningum í höndum framkvæmdastjóra lækninga og ábyrgð á hjúkrun í höndum framkvæmdastjóra hjúkrunar. Undir framkvæmdastjóra lækninga hefur alltaf verið yfirlæknir sem ber ábyrgð á sinni sérgrein. Ég leyfi mér að segja að heilbrigðisstefnan, sú sem við ræðum hér, verður að snúast um þá sem nota þjónustuna og notendur þjónustunnar verða vita með vissu hvert þeir eiga að leita þurfi þeir svör eða samtal.

Umboðsmaður Alþingis hefur bent á það tvisvar sinnum, fyrst árið 2005 og síðast árið 2018, að liggja þurfi skýrt fyrir hverjir beri ábyrgð á hverju. Læknisfræðileg meðferð er og á að vera á ábyrgð lækna.

Ég ætla aðeins að fjalla um skipurit þar sem það er eitt af þeim álitamálum sem uppi eru. Ég ætla að lesa kaflann sem snýr að skipuriti í nefndaráliti meiri hlutans og það er kannski vegna þess að ég þarf aðstoð við að skilja það.

„Við meðferð málsins komu fram athugasemdir við það að fella brott 11. gr. laganna um skipurit heilbrigðisstofnana og veita þannig forstjóra heilbrigðisstofnana einum umboð til þess að gera grundvallarbreytingar á ábyrgðarsviðum og stjórnun stofnana. Með þessu fyrirkomulagi sé hætta á að ekki verði nógu góð yfirsýn yfir stjórnskipulag heilbrigðisstofnana. Í þessu samhengi var bent á álit umboðsmanns Alþingis, nr. 9841/2018,“ — álitið sem ég nefndi áðan — „um eftirlit ráðherra með stjórnskipulagi heilbrigðisstofnana í formi staðfestingar á skipuriti stofnunar samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu. Þá var bent á þann möguleika að í stað staðfestingar ráðherra yrði kveðið á um skipun stjórnar yfir stærri heilbrigðisstofnunum sem hefði m.a. það hlutverk að samþykkja skipurit.

Meiri hlutinn tekur undir framangreind sjónarmið um að með því að afnema skyldu forstjóra til að gera skipurit stofnunar verði hætta á að yfirsýn tapist yfir skipulag heilbrigðisstofnunar. Meiri hlutinn telur að með því að forstjóri geri skipurit í samráði við framkvæmdastjórn, sé slík stjórn starfandi við heilbrigðisstofnunina samkvæmt skipuriti, og kynni það fyrir ráðherra ásamt rökstuðningi fyrir skipuritinu áður en það tekur gildi fáist aðhald að forstjóra heilbrigðisstofnunarinnar varðandi stjórnskipulag stofnunarinnar. Meiri hlutinn leggur því til breytingartillögu þess efnis að orðalag 11. gr. laganna breytist til samræmis við framangreint.“

Gott og vel. Ég ætla að klára kaflann, með leyfi forseta:

„Með 9. gr. frumvarpsins er einnig felld brott 12. gr. laganna sem kveður á um skyldu til að starfrækja framkvæmdastjórn á heilbrigðisstofnun, undir yfirstjórn forstjóra. Telja má að ekki sé alltaf þörf á framkvæmdastjórn á heilbrigðisstofnun enda sé starfsemi slíkra stofnana mismikil að umfangi. Að mati meiri hlutans eigi ákvörðun um það hvort þörf sé á sérstakri framkvæmdastjórn á heilbrigðisstofnun að vera í höndum forstjóra og koma fram í skipuriti viðkomandi stofnunar.“

Ég verð að viðurkenna að ég á mjög erfitt með að skilja hvað þetta þýðir í raun og veru. Þess vegna fagna ég því mjög að fá málið aftur inn til nefndar. Ég get verið sek um að hafa ekki verið nægjanlega góð í að spyrja nákvæmlega um þetta atriði enda þurfti ég að lesa það mjög oft og næ enn þá ekki utan um það. Það er þá forstjórans að kynna skipuritið fyrir ráðherra, ekki að fá samþykkt ráðherra. Þetta stendur og þetta er atriðið sem við höfðum töluverðar áhyggjur af. Við héldum að við værum að taka „einræðisvald“ forstjórans og setja ábyrgðina yfir á ráðherra, en það er forstjórans að kynna skipuritið fyrir ráðherra áður en það er samþykkt.

Að lokum vil ég koma inn á umsögn landlæknis, eins og fleiri hafa gert hér. Landlæknir er mjög sáttur við að hér sé skilgreind stigskipt þjónusta, ef við getum talað um það þannig. Því er haldið fram, og ég held að það sé rétt, að þannig sé hægt að sjá best fyrir hvernig fjármunir nýtist. En þó ekki. Landlæknir hefði viljað sjá betri skilgreiningu á fjarheilbrigðisþjónustu. Fleiri hafa fleiri komið inn á það hér. Ég held að þó svo að nefndin, á þeim skamma tíma sem henni er skammtaður, vildi leggjast yfir að reyna að skilgreina það myndi það ekki nást á þessum tíma. Hins vegar gæti sá möguleiki verið fyrir hendi að flýta sér aðeins hægar og koma því inn í stefnuna hvað við getum sett í fjarheilbrigðisþjónustu. Það er því allt opið. Það verkefni er reyndar sett í starfshóp, meiri hlutinn tiltekur það í sínu áliti, og hann mun skila af sér 1. júní 2021. Það er dálítið seint. Ég verð að taka undir þau orð sem féllu fyrr í dag að nú er árið 2020 og við erum ekki enn þá búin að skilgreina hvernig við ætlum að hafa fjarheilbrigðisþjónustuna.

Eins og ég hef rakið er landlæknir efins í sambandi við faglega ábyrgð innan heilbrigðisstofnana. Hann áréttar að mikilvægt sé að sú ábyrgð verði falin þeim sem hafa mestu þekkingu og faglega hæfni á hverju sviði.

Þetta er það sem ég vildi segja um málið. Ég get ekki séð að Miðflokkurinn styðji þetta frumvarp. Það eru þvílíkir ágallar á því að það er eiginlega ekki réttlætanlegt að ýta á græna takkann, eins og það kallast. Ég á von á því að við munum ekki styðja málið, frekar vera á móti.