150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

störf þingsins.

[12:34]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Að fela sig á bak við trúnað og lokaðar dyr. Ofbeldi þrífst í þögn þegar gerendur fá að komast upp með hegðun sína í skjóli þess að aðrir annaðhvort þegi eða skilji ekki hvað er í gangi. Nefndarvinnan hér á þingi er almennt séð á bak við luktar dyr og bannað er að vitna beint í orð manna. Fyrir því fyrirkomulagi eru ágætisrök en á sama tíma er hægt að misnota það skjól sem það bann veitir til að fela ofbeldi. En það eru ekki bara orð sem tjá ofbeldi. Það er ekki síður athafnir sem geta birst í duldum hótunum, ásökunum eða annarri áreitni. Með það í huga vil ég minna á að það eru Píratar sem hafa helst talað um gagnsæi í nefndum og opna nefndarfundi á meðan að ýmsir aðrir hafa viljað halda í þann huliðshjálm sem getur falið ofbeldi. Vinsamlegast hafið það í huga í framhaldinu, þau sem hafa séð eða heyrt: Segið eitthvað.

Á þessum vettvangi felum við okkur oft á bak við að störfin hérna séu í pólitískum ágreiningi á einhvern hátt sem sé bara mjög eðlilegur. Það er á vissan hátt skiljanlegt. En aftur, hægt er að nota það sem skálkaskjól fyrir óásættanlega hegðun og áreitni sem við eigum að gera greinarmun á og upplýsa um.