150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

störf þingsins.

[12:40]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Fyrr í ár fórum við virðulegur forseti og einn hv. þingmaður til, til Nýja-Sjálands í opinbera heimsókn. Við hittum þar þingið. Það er ýmislegt líkt með Íslandi og Nýja-Sjálandi, bæði stjórnarfarslega og menningarlega eins og við er að búast. Eitt af því sem er frábrugðið á Nýja-Sjálandi er að nefndarfundir, sem þó eru að mörgu leyti svipaðir þeim sem við höfum hér, eru opnir. Þegar gestir koma þá eru þeir fundir opnir. Ég spurði sérstaklega við það tilefni hvort þetta væri á einhvern hátt umdeilt og svarið var nei. Þar ríkti full sátt um þetta og þótti ekkert tiltökumál og þótti ekki valda neinum vandræðum.

Mér hefur fundist það furðulegt að hér á Íslandi, þegar breyta á einhverju, t.d. að opna nefndarfundi, er mjög stutt í það að fólk, og sér í lagi þingmenn, setji fyrir sig ýmsar hindranir sem eru kannski ekki svo mikið á rökum reistar heldur eru miklu frekar einfaldlega íhaldssemi, ótti við breytingar. Það er kaldhæðnislegt að úr sömu átt koma yfirleitt digurbarkalegar yfirlýsingar um mikilvægi hugrekkis og þors en svo þegar á að breyta einhverju verður allt ægilega erfitt viðureignar og ægilega skuggalegt. Það er jú víst fortíðin, hvernig hlutirnir hafa verið gerðir í aldanna rás, sem skiptir mestu máli. Þar er að finna hlýja öryggið þar sem fólk veit við hverju er að búast.

Ég legg til enn og aftur, virðulegi forseti, eins og ég hef gert áður, að við lítum meira til framtíðar og reynum sem þjóðríki og sem lýðveldi að vera best í einhverju. Við getum það alveg. Ég legg til að við reynum það. Ég legg til að við lítum fram á veginn, inn í framtíðina, ekki bara aftur á bak.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.