150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

störf þingsins.

[12:49]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Störf stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hafa verið til umræðu hér í þingsal. Ég ætla ekki að gera störf nefndarinnar að umtalsefni hér enda heppilegra að þau séu rædd á fundum hennar. En í gær, 15. júní, barst hins vegar bréf til nefndarinnar og er bréfið svar hæstv. forseta Alþingis við fyrirspurn nefndarinnar um með hvaða hætti nefndum sé almennt fært að ljúka frumkvæðisathugun. Mér finnst rétt að segja frá því hér að bréfið sé komið því að málið hefur borið á góma í þingsal og svarið getur átt við allar nefndir þingsins.

Þar kemur m.a. fram að langalgengast er að frumkvæðismál séu í formi svonefndra upplýsingafunda þar sem nefnd fær á sinn fund gesti í tengslum við mál sem hafa verið til umræðu á opinberum vettvangi. Það er almennt gert að tillögu nefndarmanns eða nefndarmanna og nægir að fjórðungur eða þrír nefndarmenn óski eftir að mál sé tekið upp. Það er hins vegar í höndum meiri hluta nefndarinnar hverju sinni að ákveða hvernig farið er með hvert mál. Tiltölulega fáum frumkvæðismálum lýkur með skýrslu til þingsins og nefndir hafa aðeins skilað þinginu einu áliti og sex skýrslum um athuganir sínar frá 2010. Einnig kemur fram að frumkvæðismál teljast ekki til hefðbundinna þingmála í merkingu III. kafla þingskapa og fá því ekki sérstakt máls- eða skjalsnúmer nema athugun ljúki með skýrslu. Í bréfinu eru raktar sjö leiðir til að ljúka frumkvæðisathugunum. Þar kemur m.a. fram að flestum athugunum ljúki án þess að sérstaklega sé bókað um lok þeirra eða að þeim ljúki með formlegum hætti.

Að lokum þakka ég hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur fyrir samstarfið í stjórn stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar nú þegar hún hefur hætt störfum í nefndinni og hverfur til annarra nefndarstarfa.