150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

störf þingsins.

[12:53]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Síðar á dagskrá þessa fundar er mál um stofnun félags milli ríkis og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um borgarlínu, svokallað ohf-mál. Ég vona innilega að við berum gæfu til að klára það mál. Við hefðum betur haft það á dagskrá á fundi okkar á föstudaginn síðasta, en það fór eins og það fór.

Það hefur hins vegar vakið athygli mína í umræðum um málið að hlusta á hv. þingmenn Miðflokksins og ekki bara um það mál heldur í öllum þeim málum sem tengjast samgöngumálum almennt. Þar skera þeir sig nokkuð úr. Þeir hafa talað fyrir því að hafa vilja sveitarstjórna, þar sem 230.000 íbúa landsins búa, að engu og kasta fyrir róða þeirri miklu vinnu sem þær sveitarstjórnir og ríkisvaldið hafa farið í. Það má sjá í tillögu sem er verið að fjalla um á eftir, handan götunnar í borgarstjórn Reykjavíkur, þar sem fulltrúi Miðflokksins í borgarstjórn leggur til að borgarlínuverkefninu verði frestað um óákveðinn tíma.

Mér finnst þetta sérkennilegt, forseti, sérstaklega hjá flokki sem hefur stært sig af því á stundum að taka mikið tillit til staðreynda og gagna, því að allar staðreyndir og gögn sýna svo ekki verður um villst að heildarlausnin á skipulagi umferðarmála á höfuðborgarsvæðinu er þessi samþætta lausn stofnbrauta og borgarlínunnar. Mér finnst þetta oft jaðra við að vera merki um þessa furðulegu hugsun, sem maður sá oft víða og ég hélt að væri horfin, að einstrengingsháttur sé dyggð. Að það að standa einn einhvers staðar á móti öllum öðrum sé í sjálfu sér dyggð. Svo er ekki. Samstarf (Forseti hringir.) og samkomulag um góð mál er dyggð.