150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

störf þingsins.

[12:57]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég vil aðeins nefna tvö atriði sem fram hafa komið í þessari umræðu. Í fyrsta lagi finnst mér ástæða til að taka undir með hv. þm. Ólafi Ísleifssyni að dómur þýska stjórnlagadómstólsins er afar merkilegur og enn ófyrirséð hvaða áhrif hann hefur. Hann lýsir auðvitað ákveðnum ágreiningi sem á sér stað innan Evrópusambandsins um valdmörk þjóðríkja og svo hinna yfirþjóðlegu stofnana. Það er mjög áhugavert fyrir okkur að fylgjast með því. Í okkar tilviki er ekki eða á ekki að vera neinn ágreiningur um það að Ísland er ekki bundið af því að innleiða tilskipanir eða reglugerðir frá Evrópusambandinu. Það er okkar val. Það er hins vegar ljóst að það að menn geti sagt nei þýðir ekki að þeir eigi að segja nei og það þarf að vera einhver skynsemi í því hvenær menn nota tækifæri sín til að segja nei.

Hitt atriðið sem ég ætlaði að nefna er það sem fram kom hér áðan frá fleiri en einum hv. þingmönnum Pírata um það að hafa opna nefndarfundi. Sem talsmaður umbreytinga og róttækni í þingsalnum finnst mér rétt að taka undir að það geta verið rök fyrir opnum nefndarfundum, og raunar er það svo að opnir nefndarfundir eru miklu tíðari í dag en var hér fyrir um tíu árum eða eitthvað svoleiðis. Þeir voru óþekktir hér lengi en eru ekkert sjaldgæfir í dag þó að það sé undir nefnd komið hverju sinni að velja tilefnið. Það eru kostir og gallar. Gallarnir eru kannski þeir að ekki næst sama trúnaðarsamtal innan nefndar eins og menn hafa nefnt og eins að gestir geti verið tregari til að veita nefnd þær upplýsingar sem um er beðið. (Forseti hringir.) En kosturinn er auðvitað sá að ef fundurinn er opinn og tekinn upp og öllum aðgengilegur er ekki hægt að koma með rangar lýsingar á því sem gerist á nefndarfundum. Í því er auðvitað ákveðinn kostur fólginn líka.