150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[13:53]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég skil alveg að ráðherra vilji ekki kasta peningum í eitthvað sem ekki á að standa. Ef við tökum þann tímaramma sem hv. þingmaður nefnir, 10 eða 15 ár, þar til nýtt flugvallarstæði finnst, þá þýðir það 5–10 ár frá því að síðustu krónunum af þessum 1.113 milljörðum verður varið í viðhald á núverandi flugvelli, þannig tregðan til að finna nýjan kost minnkar síst við þessar framkvæmdir.

En mig langaði aðeins að víkja að því sem þingmaðurinn nefndi varðandi myndgreiningu, minnir mig að hún hafi kallað það, sem er mjög áhugavert viðfangsefni, ekki bara varðandi gjaldtöku í samgöngum, eins og oft er nefnt. Það er einhver framtíðarsýn sem við þurfum mögulega taka á einhvern tímann, en er miklu nær okkur í tíma og nú þegar í dag er praktíserað eftirlit með hraða. Meðalhraðaeftirlit er eitthvað sem Vegagerðin hefur stefnt að í sennilega fimm ár að setja inn í áföngum í staðinn fyrir punktaeftirlitið sem sinnt er af sjálfvirkum kössum eða lögreglu. Þar vakna náttúrlega sömu persónuverndarspurningarnar um hvort skima eigi alla bíla sem fara fram hjá myndavél og í raun ganga út frá því að þeir séu mögulega að brjóta lög og tékka svo á því hversu langur tími líður þar til þeir fara fram hjá næsta punkti.

Það er gríðarlegt eftirlit sem þarna yrði sett upp og mig langar aðeins að hlera hjá þingmanni hvort sá þáttur hafi verið ræddur eitthvað í nefndinni undanfarið en ekki bara í tengslum við gjaldtöku.