150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[14:16]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ágæta ræðu og yfirferð yfir samgönguáætlun eða þessi plögg sem liggja fyrir þinginu. Það er rétt að plöggin eru býsna viðamikil og mikilvæg fyrir framtíðarstefnu og stefnumótun þegar kemur að samgöngumálum. Auðvitað er alltaf eitt og annað sem stingur í augu í svona stórum plöggum og ég ætla kannski að fara yfir það í ræðu síðar í dag.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í mál sem ég veit að kemur honum ekki á óvart að ég spyrji út í. Það er þessi borgarlínupæling öllsömul. Maður veltir fyrir sér hvað þetta er gríðarlega stórt verkefni, mjög metnaðarfullt ef þannig má orða það, þegar við horfum ekki eingöngu á umfang þess heldur líka allan kostnað. Maður verður viðurkenna að það er mjög metnaðarfullt að setja svona stórt verkefni á borðið. En ég hef miklar áhyggjur af því að menn hafi í rauninni ekki hugmynd um hvar þeir ætli að hætta þegar kemur að kostnaði við verkefnið.

Þess vegna spyr ég hv. þingmann: Liggur fyrir kostnaðaráætlun sem rammar inn heildarkostnað við borgarlínu? Hefur t.d. verið gert arðsemismat á framkvæmdinni? Hv. þingmaður gerði töluvert af því að réttlæta veggjöld og einkaframkvæmdir sem Vinstri græn hafa ekki endilega verið þekkt fyrir að styðja í gegnum tíðina en nú er flokkurinn á fullu í einkaframkvæmdum og veggjöldum. Það hlýtur að liggja að baki arðsemismat fyrir borgarlínu þegar hægt er að fullyrða að það sé ábati af þeirri framkvæmd. Þá langar mig líka að spyrja: Hvað er gert ráð fyrir miklum rekstrarkostnaði á ári við þessa borgarlínu?