150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[16:17]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þessi stefna, að leggja fram mat á loftslagsáhrifum um allar helstu áætlanir, er mjög göfugt markmið. Og í raun og veru tek ég undir gagnrýni hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar á okkur, um að leggja ekki fram slíkt mat — þetta er tilraun til sjálfsgagnrýni. Ég er þó þeirrar skoðunar, eftir að hafa unnið í þessu mjög mikið, að nettóáhrifin af samgönguáætlun eru í hag okkar, í hag loftslagsins, í hag baráttunnar gegn loftslagsbreytingum sem við erum að eiga við, sem sagt samanlögð áhrif í jákvæðisátt á móti aukinni losun. Hún er veruleg við framkvæmdir af þessu tagi, þ.e. notkun á jarðefnum, steypu, þungavinnuvélar o.s.frv. Mér er til efs að það takist nema með mjög mikilli og langri vinnu og það sé töluvert flókið að koma fram með frambærilegar tölur vegna þess einfaldlega að það eru svo mörg atriði þarna inni, ekki bara umferð, ekki bara hafnir, flug eða hvaðeina, alls konar hreyfingar, kolefnaeldsneyti, heldur einnig allt sem er í neikvæðisátt vegna framkvæmdanna sjálfra. Þannig að ég myndi leysa þetta með því að leggja fram þingsályktunartillögu um að þessi vinna færi fram fyrir næstu endurskoðun samgönguáætlunar. Ég spyr hvort þingmaðurinn sé mér sammála um að það væri ágætislausn í þessu máli.