150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[16:19]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka andsvarið. Það hvernig hv. þingmaður orðar þetta, að hann sé þeirrar skoðunar að nettóáhrifin séu jákvæð, endurspeglar vandann sem við erum í þegar ekki eru tölur að baki. Þá fer það eftir því hvernig fólk hefur lesið í gegnum skjalið og hvaða forsendur það hefur til að meta hvort skoðun þess verði sú að þetta sé til góðs eða ekki. Þess vegna fannst mér þetta einmitt svo góð tillaga í stjórnarsáttmálanum, að meta allar stærri áætlanir út frá loftslagsmarkmiðum. Ég er alveg sammála þingmanninum um að það kalli á mjög mikla vinnu. En vinnan að baki samgönguáætlun er líka mjög mikil. Það er ofboðslega viðamikið og þungt að undirbúa slíka áætlun og ég held að sú viðbót sem felst í því að uppfylla þetta skilyrði stjórnarsáttmálans ætti ekki að vera það mikil ofan á það.

Varðandi hugmyndir um að leggja fram þingsályktunartillögu um að gera það sem sagt er að eigi að gera í næstum þriggja ára gömlum stjórnarsáttmála — jú, það er auðvitað fínt að ríkisstjórnin fái skýrara umboð til að framfylgja því. Þess ætti hins vegar ekki að þurfa því að þetta er eitt af því sem flokkarnir sammæltust um að gera veturinn 2017–2018 þegar stjórnin var mynduð. En ef þingmaðurinn vinnur tillögur til að ýta á eftir fólki varðandi það þá styð ég það að sjálfsögðu þó að mér þykir nú ansi illa fyrir okkur komið að þess þurfi.