150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[16:23]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þingmaðurinn benti á að það er ýmislegt sem okkur vantar yfirlit yfir, eins og t.d. varðandi losun gróðurhúsalofttegunda frá landi. Það er nokkuð sem ég rakst mjög oft á þegar ég vann í starfshópi sem undirbjó velsældarvísana, aðra mælikvarða á þróun samfélagsins en bara hagvöxt, að þegar við skoðuðum sviðið út frá þeim þremur stöplum sem mynda saman sjálfbæra þróun þá voru til tölur um samfélagsþróunina, til voru fínar tillögur um efnahagsþróun, en þegar kom að umhverfismálum þá áttum við bara mjög lítið af tölum sem eru uppfærðar með nógu reglubundnum og traustum hætti til þess að hægt sé að setja þær inn í svona vísi. Þetta sýnir okkur hvað umhverfismálin hafa verið jaðarsett lengi, sem ég veit að hv. þingmaður þekkir manna best. Nú þarf það bara að lagast og horfir það til bóta að ýmsu leyti.

Varðandi PPP-verkefnin þá er tilefni lagasetningarinnar fjármögnunarleiðin. Það snýst um að koma framkvæmdum undan A-hluta ríkissjóðs þannig að ríkið lendi ekki í veseni út af lögum um opinber fjármál. Það er einhver hreintrúarstefna sem ég er bara ekki með á. Sagt er að þetta séu mjög brýnar samgönguframkvæmdir, en þær eru misbrýnar, þessar sex sem fjallað er um í frumvarpinu, alveg frá því að vera á hugmyndastigi, sem myndi kalla á margra ára vinnu, yfir í að vera það umdeildar að jafnvel ætti að sleppa því að fara í þær. Svo eru jú inn á milli nokkuð brýnar og ágætar framkvæmdir.