150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[16:40]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég hef nokkrum sinnum nefnt það hér hvort ekki væri ástæða til að hafa sérstaka samgönguáætlun fyrir höfuðborgarsvæðið. Það er kannski fyrst og fremst vegna þess að ég hef litið á sérstöðu svæðisins. Þetta er tiltölulega lítið svæði, ef litið er á landið í heild sinni, þar sem mjög margir búa, og það er eitt atvinnusvæði, þannig að samgöngubætur á Miklubraut skipta t.d. íbúa í Mosfellsbæ kannski alveg jafn miklu máli og íbúa á Seltjarnarnesi vegna þess að við flæðum öll um þetta svæði á nánast hverjum degi. En í stærri landshlutum eru hagsmunirnir eðlilega aðeins aðrir. Maður hefur meiri hagsmuni af samgöngubótum í sínu nærsamfélagi en þegar tekinn er fyrir allur Vestfjarðakjálkinn eða allt Vesturland. Þess vegna hef ég talið rétt að horfa sérstaklega til höfuðborgarsvæðisins. Mjög jákvæð þróun hefur samt einmitt átt sér stað um landið allt, landshlutasamtök hafa tekið sig saman og sameinast svolítið um forgangsröðun. Ég held að það skipti okkur þingmenn mjög miklu máli að landshlutasamtökin séu sterk og að þau hafi burði til að leggjast í þá vinnu. Best er náttúrlega ef hægt er að ná einhvers konar sátt um hvernig á að forgangsraða verkefnunum. Þá tek ég undir að stundum getur verið skynsamlegra að við hér sinnum fyrst og fremst fjárveitingavaldinu og hönnun og eftirliti með framkvæmdum vel, en látum heimamönnum eftir í auknum mæli að huga að þeirri forgangsröðun sem þeir hafa komið sér saman um.

Að lokum. Ég kættist mjög þegar hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé sagði mér að PPP-verkefnafrumvarpið væri komið út úr nefnd, þannig að ég fagna því að hægt sé að ræða það hér vonandi síðar í þessari viku, eða alla vega í byrjun næstu.