150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[17:07]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alls ekki á móti flýtingu. Ég taldi upp skilyrðin sem ég tel þurfa að uppfylla áður en við getum í rauninni farið að hugsa um það hvaða verkefnum er hægt að flýta og hvaða verkefni er ódýrast og hagkvæmast að hafa í opinberri fjármögnun því að eins og kemur fram hjá umsagnaraðilum væri framkvæmd hjá einkaaðilum 20–30% dýrari. Það telur einfaldlega á móti þeim arði sem samfélagið gæti fengið af framkvæmdinni.

Við forgangsröðun byrjar maður alltaf á grófflokkun, ekki eins nákvæmri forgangsröðun eða arðsemismati eða kostnaðargreiningu. Maður byrjar á að meta hvert verkefni í stóru myndinni. Út frá stóru myndinni og niðurstöðum úr grófri forgangsröðun eða grófri kostnaðargreiningu og ábatagreiningu er hægt að taka frekari ákvörðun um það að hvaða verkefnum á að einbeita sér og nota tímann í nákvæmari kostnaðargreiningu.