150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[17:08]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Mig langar að segja það varðandi einkaframtakið, eða það að nýta einkaaðila líka í svona framkvæmdum, að ég ætla alls ekki að halda því fram að það sé lausn á öllu. Stundum hentar það mjög vel en stundum alls ekki. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að yfirleitt er það þannig að opinberir aðilar geta fjármagnað hlutina með hagkvæmari hætti. En það eru fleiri þættir sem þarf að horfa til. Einkaaðilinn sem mun mögulega líka koma að rekstri mannvirkisins getur verið betur til þess hæfur að hanna það og framkvæma það með hagkvæmari hætti en opinberir aðilar.

Ég ætla að koma með aðra spurningu varðandi veggjöldin sem mér hefur heyrst hv. þingmaður vera býsna ósammála eða ósáttur við. Nú hygg ég að við hv. þingmaður kunnum að vera sammála um mikilvægi orkuskiptanna og að hér keyrum við á rafmagni, vetni eða einhverjum vistvænni orkugjöfum frekar en olíu. Þegar horft er til framtíðar og framtíðarskattlagningar á ökutæki, hvernig væri rétt að fjármagna vegaframkvæmdir til lengri tíma litið? Eru veggjöld eða einhvers konar notkunargjöld ekki einmitt nauðsynleg inn í þá umræðu?