150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[17:12]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir frábæra spurningu. Já, það er svo merkilegt að við þekkjum æskilegar vegtegundir. Við vitum hvaða vegur ætti að vera á hverjum stað en það er mjög undarlegt að við þekkjum í rauninni ekki tegundirnar. Við getum spurt um hvaða tegund ákveðinn vegkafli sé, af því að þegar raunveruleg vegtegund og æskileg vegtegund liggur fyrir sjáum við strax muninn á því. Einungis með slíkum gagnagrunni sjáum við hvar vandamálin eru af því að við tengjum það að sjálfsögðu við umferðartölur og umferðarnotkun og það þegar fjöldi ferðamanna eykst mikið, eins og gerst hefur undanfarið. Þá sjáum við strax að mjög lélegur vegur verður allt í einu fyrir miklu meira álagi, sem kemur honum ofar í forgangsröð í áttina að því að þar verði lögð æskileg vegtegund. Þá sjáum við það strax og getum gripið til aðgerða þar. Ef við vitum ekki hver er æskileg vegtegund og raunveruleg vegtegund er þar þá fáum við ekki þær upplýsingar og getum ekki brugðist við á þann hátt sem aðstæður krefjast.