150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[17:14]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að starfsmenn Vegagerðarinnar um land allt, og jafnvel á miðlægri skrifstofu í Reykjavík, hafi nú þá tilfinningu fyrir vegunum, hver í sínu umdæmi. Ég tel mig þekkja býsna stóran hluta af vegakerfi landsins á þann hátt að ég gæti sagt til um hvar er mikil umferð og hvar ekki. Ég held að vandinn sé að stór hluti af vegakerfinu, þar sem grunnurinn var lagður af frumkvöðli á jarðýtu, falli ekki undir neina af þeim vegtegundum sem skilgreindar eru.

Aðeins að samráðinu og nærsamfélaginu. Mér fannst þingmaðurinn gera dálítið lítið úr öllu því samráði sem haft hefur verið við gerð samgönguáætlunar og allri þeirri forgangsröðun sem fram fer í landshlutunum. Ég veit ekki betur en að öll samtök sveitarfélaga búi til forgangsröð, kynni hana fyrir samgönguráði og svo þinginu o.s.frv. Síðan útdeilir Vegagerðin úr pottum, tengivegapottum, viðhaldspottum og fleiru, á hverju svæði í samvinnu við sveitarfélögin.