150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[17:15]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég biðst afsökunar á því. Ég skil alveg hvernig skilja mátti það af ræðu minni að ég væri að gera lítið úr því en ég meinti það alls ekki þannig. Ég var aðallega að tala um að færa ákvörðunarvaldið til nærsamfélagsins, ekki bara samráðið. Eitt af því sem ég spurði öll landshlutasamtökin út í þegar þau komu á fund nefndarinnar var: Hvernig ríma áætlanir ykkar við samgönguáætlun eins og hún er núna? Niðurstaðan var að þær gerðu það alveg ágætlega, en það voru ákveðnar brotalamir þar, sem við þekkjum öll, varðandi hina og þessa héraðsvegi og malbikaða vegi og ýmislegt svoleiðis.

Klárum svo þessa æskilegu og raunverulegu vegtegund. Hv. þingmaður kom inn á tilfinningu fyrir vegakerfinu. Mér finnst merkilegt að hugsa til þess að það þýði að við mörkum stefnu um uppbyggingu í samgöngukerfinu út frá tilfinningum. Það er það sem það þýðir. Það er ekki staða sem hugnast mér.