150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[17:17]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Guðjón S. Brjánsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Mig langar að gera að umtalsefni fjármögnun samgönguáætlunar. Lítillega er drepið á þessi samvinnuverkefni í áætluninni, svokölluð PPP-verkefni, og flutti hv. þingmaður áheyrilega eldmessu um það efni. Mig langar að staldra aðeins við þetta. Hv. þingmaður bendir á í ræðu sinni að þetta sé kostnaðarsamari leið fyrir ríkissjóð, fyrir okkur öll, en aðrir kostir sem bjóðast. Á það hafa fleiri bent. Félag íslenskra bifreiðaeigenda gerði það og meira að segja fjármálaráðuneytið í athugasemdum sínum. Ég spyr hv. þingmann hvort hann geri sér að einhverju leyti ljóst hvers vegna stjórnvöld setja sig í þessar stellingar. Ég geri mér grein fyrir því að menn fara með ákveðna möntru og segja: Ef við förum ekki þessa leið þá gerist ekki neitt, þá dregst þetta um áratugi. Viljið þið það?

Hvers vegna setja stjórnvöld sig í þær stellingar? Er þetta bara trúboð? (BLG: Já.)