150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[17:18]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, þetta er einfaldlega trúboð, þetta er bara hugmyndafræði. Það er einfaldlega verið að reyna að selja og koma á ákveðinni hugmyndafræði um skattheimtu fyrir einstaka notkun í stað skattheimtu sem ákveðna dreifingu eða jöfnun. Ein af ástæðunum fyrir því að við endum hér er að ekki er gerð kostnaðar- og ábatagreining á nægilega skilmerkilegan og aðgengilegan hátt fyrir okkur. Ef ég ætla að finna hver kostnaðar- og ábatagreiningin er, þá sérstaklega þjóðhagsleg ábatagreining, fyrir einstakar framkvæmdir í samgönguáætlun, er flókið fyrir mig að nálgast það ef ég get nálgast það yfir höfuð. Það segir mér að þegar við tökum ákvörðun um að fara í ákveðna framkvæmd með tilliti til kostnaðar- og ábatagreiningar, þ.e. þegar hana vantar, er mjög erfitt að segja að við getum bara fjármagnað þetta með skuldbindingu, með láni, af því að arðsemin af verkefninu borgar sig mjög auðveldlega, þetta er arðbær fjárfesting, eða við getum sagt að við getum fjármagnað það með veggjöldum. Þá er kostnaðurinn við byggingu framkvæmdarinnar tiltölulega vel tryggður en hann er miklu meiri.