150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[17:20]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er alveg frábær spurning. Stutta og einfalda svarið við henni er eins og nokkurn veginn allt annað hérna hvað varðar fjárlögin o.s.frv.: Ég hef ekki hugmynd. Ástæðan fyrir því er að það er engin kostnaðar- og ábatagreining um neitt. Við vitum ekki hvort verkefnin í þessu séu arðsöm eða ekki. Ég ætla að gera ráð fyrir því að þau séu velflest arðsöm upp á samgöngur að gera almennt, hvernig þær eru virðisaukandi. Það er tiltölulega auðvelt að gera ráð fyrir því að þegar allt kemur til alls þjóðhagslega séð komum við út í plús. Og á þeim forsendum getur samgönguáætlun ekki verið brostin sem slík af því að öll verkefni koma þá væntanlega líka samanlagt út í plús. En þá er bara spurning um fjármögnun og hversu dýr hún er. Við erum með mjög góð kjör á lánum eins og þessum á meðan fjármögnun með veggjöldum bætir 20–30% ofan á kostnaðinn, sem seinkar arðinum eins og ég gat um áðan. Þar er vandamálið í hnotskurn, við vitum ekki hver arðsemin er af þessum verkefnum. Þá er ekki hægt að segja af eða á um hvort lántaka sé í raun betri, mjög líklega betri, eða hvort samgönguáætlun er brostin.