150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[17:43]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um 15 ára samgönguáætlun fyrir árin 2020–2034 og einnig tillögu til þingsályktunar um fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2020–2024. Í 15 ára samgönguáætlun er mörkuð stefna og markmið fyrir allar greinar samgangna næstu árin. Meginmarkmið áætlunarinnar er að tryggja greiðar, hagkvæmar, öruggar og umhverfislega sjálfbærar samgöngur og stuðla að jákvæðri byggðaþróun. Fimm ára áætlunin er sett fram sem aðgerðaáætlun fyrir hvert ár tímabilsins og fyrir hverja stofnun og fyrirtæki samgöngumála innan ramma fjárlaga.

Mig langaði að fara yfir nokkra punkta. Það er margt jákvætt að gerast í samgöngumálum og við ræddum þau mál síðast fyrir ári síðan og margt er til bóta. Mál hafa þróast með jákvæðum hætti undanfarið ár og vilji er í þinginu og hjá stjórnvöldum til að setja meira fjármagn í samgöngubætur og -mannvirki.

Ég ætla að byrja á jarðgangaáætlun og taka undir þau sjónarmið sem hafa komið fram í umræðunni um samgönguáætlun, við þurfum að leggja áherslu á hana og forgangsraða. Það kemur fram í meirihlutaálitinu sem var rætt hér í gærkvöldi. Mig langar að bæta inn í þá umræðu þar sem almennt hefur ekki verið mikið verið rætt um það hvernig við ætlum að leysa málefni Tröllaskaga í hinu stóra samhengi næstu ár og áratugi, sem snúa að gangagerð þar. Þetta er mikill fjallahringur og margt þar sem þarf að leysa með göngum og hefur í sjálfu sér ekki verið mikið rætt. Ef við byrjum norður við Siglufjörð og á umræðunni um Siglufjarðargöng undir Siglufjarðarskarð, frá Siglufirði yfir í Fljótin, hafa verið tveir valkostir þar í umræðu um 5 km göng. Síðan eru það Ólafsfjarðargöngin sem eru 30 ára gömul og barn síns tíma, mig minnir að þau hafi verið tekin í notkun 1989. Þau eru einbreið með útskotum og oft skapast mikil vandræði þar. Við þurfum klárlega að horfa til framtíðar um það hvernig við ætlum að leysa málefni Ólafsfjarðarganga, hvort það eigi að reyna að tvöfalda þau, því þau anna engan veginn þeirri umferð sem fer um göngin, eða hvort við eigum við að breyta, á langtímaplaninu, og fara beint frá Ólafsfirði yfir til Dalvíkur.

Síðan hefur verið umræða um Tröllaskaga. Sveitarfélög á Norðurlandi, Akureyri og í Skagafirðinum, gerðu milli sín samkomulag um að láta skoða Tröllaskagagöng. Þau væru ákaflega löng og mikil, 21 km ef farið yrði úr Barkárdal yfir í Hjaltadal við Hóla. Síðan eru aðrar hugmyndir um að fara norðar úr Hörgárdal yfir í Skíðadal og síðan áfram yfir í Kolbeinsdal. Síðan eru fleiri gangakostir sem ég ætla að telja upp. Það eru um 4 km göng undir hæsta hluta Öxnadalsheiðar. Stóra hugmyndin er að fara undir alla Öxnadalsheiðina, nánast yfir í Norðurárdal úr Öxnadal. Þá eru komnir 10 km. Í þessari umræðu hef ég skrifað og talað fyrir því að skoða einnig leið inn Hörgárdalinn yfir í Norðurárdalinn, eins og voru hugmyndir um í gamla daga, þegar leiðin um Öxnadal og Öxnadalsheiði var ákveðin, hvaða kostir væru á að fara inn Hörgárdalinn og yfir í Norðurárdal með göngum.

Ástæðan fyrir því að ég ræði það hér er að ég tel og hef talað fyrir því að sveitarfélögin í Eyjafirði eigi að fara í frekari vinnu og skoða heildarsamhengi hlutanna og hvert þau vilji fara í jarðgangagerð á næstu árum og áratugum. Það er töluvert flækjustig í þeim málum, hvaða leið eigi að fara og hvað komi best út þegar litið er til samfélagslegra, efnahagslegra og umhverfislegra þátta. Það þykir mér vera umræða sem þarf að dýpka á næstu misserum og er gríðarlega mikilvæg fyrir þróun svæðisins til lengri tíma.

Það er margt sagt um flug í áætluninni, m.a. kemur flugstefnan til leiks, sem var gerð á síðasta ári. Margt kemur fram í plagginu sem tengist þeirri umræðu og á síðustu tveimur, þremur árum hefur öll umræða um flugmál aukist töluvert mikið í þinginu, í samgöngunefnd og í þingsal, og hún heldur áfram og það er gríðarlega gott, enda er flugið gríðarlega stór og mikilvæg grein fyrir okkur Íslendinga. Hér er einnig minnst á skosku leiðina sem almenningssamgöngur. Gert er ráð fyrir henni í fjárlögum frá 1. september þannig að hún fer að koma inn. Komið er inn á flugvellina, alþjóðaflugvellina og grunnnet innanlandsflugvalla, og teknar fram þær breytingar sem eru að verða með nýrri hugmyndafræði um hvernig eigi að standa að fjármögnun þeirra. Auðvitað er þetta erfitt í augnablikinu vegna þess sem hefur gerst í tengslum við Covid og þeirra gríðarlegu erfiðleika sem hafa skapast í fluginu en það þarf að hafa framtíðarsýn og sjá fyrir sér hvernig hlutirnir gerast. Mér hugnast vel sú hugmyndafræði sem þarna er.

Varðandi innanlandsflugið og skattlagningu á það vil ég nefna, eins og var bent á í áliti meiri hluta samgöngunefndar, að 2010 voru sett leiðargjöld á innanlandsflugið og fleiri skattar og gjöld bættust á það. Ég tel nauðsynlegt, á vettvangi sem við á hér í þinginu, að skoða hvað hægt er að gera til að lyfta þeim álögum sem settar voru á innanlandsflugið fyrir um tíu árum, en það á náttúrlega býsna erfiða daga þessi misserin. Mig grunar að þetta gætu verið um 400–500 millj. kr. á ári, gjöldin sem voru sett á fyrir að verða tíu árum síðan og hafa verið viðbótarkostnaður fyrir innanlandsflugið frá þeim tímapunkti.

Það er margt gott að gerast og góðar ákvarðanir teknar sem bætast inn í samgönguáætlun, fjárfestingar sem eru hluti af Covid-aðgerðum stjórnvalda. Í fjárfestingaráætluninni sem var sett fram í fjárauka eitt kom fjármagn til framkvæmda m.a. í Norðausturkjördæmi, þar fóru 200 milljónir í flugstöð og 315 milljónir í flughlað á Akureyrarflugvelli og fjármagn til Egilsstaðaflugvallar til að hefja hönnun á akstursbrautum og flughlöðum, mig minnir að það séu 35 milljónir í samgönguáætlun sem hér er lögð fram.

Ljúka á þessum fjárfestingarpakka, þessum framkvæmdum, í gegnum fjárfestingarátak 2021–2023 sem verður kynnt í tengslum við fjármálaáætlun og síðan í fjárlögum næsta árs í haust þegar við förum í fjárlagaumræðuna. Ef ég mundi það rétt, þegar ég var að hripa niður þessa punkta, er gert ráð fyrir um 25 milljörðum í framkvæmdir í fjárfestingarátaki 2021, 20 milljörðum 2020 og 15 milljörðum 2022. Lúkning á þeim framkvæmdum sem eru að hefjast á þessu ári er tengd þessu. Mig minnir að af þeim 15 milljörðum sem voru í fjárfestingarátakinu í fjárauka eitt hafi um 6 milljarðar verið settir í samgöngumál og samgöngumannvirki.

Það er náttúrlega gríðarlega mikilvægt og fyrir því hef ég hér talað árum saman — ég er kannski ekki búinn að vera hérna árum saman en það eru nokkur ár síðan ég byrjaði á þingi — ég hef rætt um mikilvægi varaflugvallanna og þess öryggismáls sem öflugt varaflugvallakerfi er, hvort sem það er fyrir Keflavík eða innbyrðis milli alþjóðaflugvallanna og flugvallakerfisins. Það er gríðarlega mikilvægt að vel sé að því staðið, hvort sem það á við lengd flugbrauta, stærð flughlaða, aðflugsbúnað og slíka þætti, aðbúnað og að halda völlunum með góðri bremsu yfir vetraraðstæður, með sópum og sanddreifurum og öllu sem fylgir. Ég er tiltölulega sáttur við það hvernig sú umræða hefur farið vaxandi og meira og meira tillit tekið til þeirra þátta og alvöru þeirra. Þetta er stórt og mikið öryggismál og ég hef sagt að varaflugvallakerfið sé raunverulega þjóðaröryggismál.

Einnig er ég mjög ánægður með það sem kemur fram í meirihlutaáliti samgöngunefndar um EGNOS og gervihnattaleiðsögu. Ég hef talað fyrir mikilvægi þess máls nánast frá fyrsta degi hér á þingi og að það nái fram að ganga. Í dag hefur austari hluti landsins, Tröllaskagi niður að Mýrdalsjökli, aðgengi að EGNOS-gervihnattaleiðsögunni en vesturhluti landsins hefur það ekki. Því er mjög mikilvægt að koma upp leiðréttingarstöðvum sem þyrftu væntanlega að vera á Grænlandi. Ég tel að í raun ætti að vinna það í samvinnu við Grænlendinga og Dani hvernig við gætum eflt þetta. Einnig eru gríðarlega miklir möguleikar fyrir Grænlendinga og mikilvægt fyrir þá að byggja upp þetta kerfi. Við erum í ákveðinni holu hérna á vesturhluta landsins og yfir Grænlandi á milli bandaríska kerfisins sem heitir WAAS og EGNOS sem er Evrópumegin. Það þarf að nást gott samkomulag um hvernig eigi að standa að þessu. Það er því mjög gott að sjá að það er vaxandi áhugi á þessum málefnum hér. Ég fagna því breytingartillögu meiri hlutans og hinum góða texta sem kemur fram um EGNOS og gervihnattaleiðsöguna.

Ég vil líka minnast á Reykjavíkurflugvöll sem hluta af varaflugvallakerfinu og algert lykilhlutverk hans í innanlandsflugi. Sá punktur kemur fram í áliti meiri hluta samgöngunefndar að um 90% af öllum farþegum í innanlandsflugi á Íslandi tengjast Reykjavíkurflugvelli með einhverjum hætti á ferðalagi sínu þannig að hann er gríðarlega stór hluti af því og gríðarlega mikilvægt að staðið sé vel að öllum þeim málum og að völlurinn fái að standa í friði þangað til a.m.k. jafn góður eða betri kostur finnst hér á suðvesturhorninu til að sinna því hlutverki sem flugvöllurinn hefur í svo mörgu, hvort sem það er varðandi farþega eða almenningssamgöngur sem við erum flest komin með skilning á að innanlandsflugið sé, en einnig vegna sjúkraflugsins sem er gríðarlega mikilvægt. Við sem búum á landsbyggðinni þekkjum mikilvægi þess að hér sé rekið öflugt sjúkraflug með góðu aðgengi að okkar öflugasta sjúkrahúsi sem Landspítalinn við Hringbraut er. Í dag eru um 850 sjúklingar á ári fluttir með sjúkraflugi í um 800 flugferðum. Það má líka segja að EGNOS tengist þessu. Við viljum ná því vegna þess að lágmörk og betra aðflug inn á flugvelli vítt og breitt um landið er hluti af því að byggja upp EGNOS-kerfið. Það hefði líka mikil áhrif á svokallaðar lágflugsleiðir fyrir björgun og leit í landinu. Það væri hægt að búa til aðflug sem næði inn í dali og firði vítt og breitt um landið, búa til svona þveranir í lágflugsleiðum, sem er þekkt fyrirbæri í Ölpunum og víðar. Það er mjög mikilvægt í leit og björgun.

Þá held ég að ég sé búinn að hlaupa í gegnum þá punkta sem ég skrifaði á blað fyrir ræðuna. Að lokum vil ég vekja athygli á því sem kom fram í ágætu nefndaráliti 2. minni hluta í gær varðandi samninga Isavia við hollensku geimferðastofnunina um athugun á veðurfari og vindskilyrðum vegna framkvæmda í kringum Reykjavíkurflugvöll og þeirra sem fyrirhugað er að fara í. Isavia hefur tekið það frumkvæði að biðja um rannsókn frá hollensku geimferðastofnuninni til að meta það og von er á niðurstöðum innan fárra vikna. Það er mjög mikilvægt og gott framtak hjá Isavia að óska eftir því að þessi rannsókn sé gerð til að meta í framhaldinu vind á flugið vegna fyrirhugaðrar byggðar við Stóra-Skerjafjörð. Kvartanir hafa komið frá flugmönnum um að í ákveðnum vindáttum hafi orðið breytingar og það eru áhyggjuefni sem tengjast þessu.

Síðan er rétt að vekja athygli á því að frá samkomulaginu í október 2013 er ekki enn búið að lækka trén í Öskjuhlíðinni. Þau eru farin að hafa áhrif á lágmörk í ákveðnu aðflugi inn á brautarendann þegar menn lenda á Reykjavíkurflugvelli til norðvesturs. Þar er búið að loka á ákveðið aðflug vegna þessa. Það vekur töluverða furðu að heyra þetta enn þá vegna þess að búið er að segja margoft í nokkur ár að þetta sé alveg að fara. En núna erum við í þeirri stöðu að búið er að leggja af ákveðið aðflug þar sem trén eru farin að vaxa upp í hindrunarflöt fyrir viðkomandi aðflug. Ég held að það væri sjálfsagt núna fyrir samgöngunefnd að skoða þetta mál frá 2013, þegar samningurinn var gerður. Annars vegar átti að tryggja að trén færu ekki upp í hindrunarfleti aðflugs og hins vegar voru aðflugsljós hluti af því samkomulagi. Þau eru ekki enn þá komin fyrir annan brautarendann við Skerjafjörð. Það er ekki búið að klára það sem kom fram í þeirri vinnu og þeim samningi á sínum tíma og snýr að þeim þætti. Það ætti ekki að vera mikið mál að klára að lækka trén sem mér er sagt að flugvallarstarfsmenn á flugvellinum í Reykjavík hafi plantað í kringum 1950. Þetta mál þarf að taka upp hér á þinginu og framkvæmdarvaldið og samgönguráðuneytið ættu að klára það.

Ég ætla að ljúka þessu með því að þakka samgöngunefnd og meiri hlutanum fyrir þá vinnu sem kemur fram í þessum tveimur samgönguáætlunum, fyrir árin 2020–2024 og 2020–2034.