150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[18:09]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek svo sannarlega undir sjónarmið hv. þingmanns. Ég myndi klárlega vilja sjá miklu sterkari þjónustumiðstöðvar vítt og breitt um landið en það er veruleiki sem hefur verið að þróast með ákveðnum hætti og ótrúlega hratt á síðustu 20–30 árum, í þessum nútíma sem við lifum í, og við getum þráttað um hvað er raunhæft og hvað ekki.

Ég skoðaði þetta sjálfur fyrir nokkrum árum og skrifaði um það grein hvernig fólk ferðast milli Akureyrar og Reykjavíkur. Um háveturinn fljúga fleiri á milli en keyra. Það fór alveg upp í 63–64% einstaka mánuði í mesta skammdeginu. Eldra fólk keyrir bara ekki, sumir hætta að keyra á veturna, líst ekkert á vond veður og allt það. Síðan breytist hlutfallið og er kannski 25% yfir sumarið. Þá hafa erlendu ferðamennirnir komið á móti og haldið tíðninni nokkuð eðlilegri. Ef við hugsum þetta má segja að við búum við þannig veðurfar á Íslandi, ekki síst um háveturinn, að hér eru ákveðnar eyjar líka vegna þess að þetta er bara gríðarlegt mál. Að keyra frá Austurlandi við góð skilyrði eru 7–8 klukkustundir sem geta síðan orðið hálfur sólarhringur eða meira ef eitthvað er að veðri.

Það gleymist kannski oft að ræða þennan veðurfarslega þátt. Þess vegna verður mjög fróðlegt að sjá hvernig almenningur mun nýta sér skosku leiðina. Minn grunur er að nýtingin verði yfir fimm til sex dimmustu og erfiðustu veðurfarsmánuði ársins. Þetta er bara mjög erfitt víða. Við sem búum á landsbyggðinni þekkjum að tíðarfarið getur oft verið ansi erfitt.