150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[18:11]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér samgönguáætlun til fimm ára og áætlun fyrir árin 2020–2034. Það er, myndi ég segja, með stærri málum sem við er að eiga hér á landi, a.m.k. hvað varðar innviðauppbyggingu á landsbyggðinni. Fjárfestingarþörfin í vegakerfi landsins er talin vera um 400 milljarðar og segir það okkur að vegakerfið á landinu er langt á eftir ákalli nútímaþarfa í samgöngumálum. Það hefur verið áhyggjuefni til margra ára hvað okkur hefur gengið illa að vinna á þeim stabba sem fjárfestingarþörfin er.

Auðvitað er það skýrt í mínum huga að þær aðstæður sem við búum við hér á okkar fallega, strjálbýla landi eru þannig að kostnaðurinn við að koma þeim málum í lag er mikill miðað við íbúafjölda landsins. Á síðustu árum hefur ferðamönnum fjölgað gríðarlega. Það þýðir meira álag á þjóðvegi landsins. Árið 2018 komu 2,3 milljónir ferðamanna til landsins. Þungaflutningar hafa aukist mikið, fiskur er t.d. keyrður fram og til baka vegna breyttra aðstæðna í fiskvinnslu og ferskfiskútflutningi. Strandsiglingar á vegum ríkisins voru aflagðar fyrir nokkrum árum sem jók þungaflutninga á landi og þannig mætti áfram telja.

Besta fjárfesting í innviðauppbyggingu er í góðum samgöngum og er það númer eitt, alla vega í mínum huga, í þeirri vinnu. Margt ungt fólk sem er að stofna fjölskyldu eða einstaklingar sem eru að leita sér að vinnu og vilja flytja út á land horfa til þess hvernig samgöngur eru á stöðum þar sem vinna býðst. Uppbygging á landsbyggðinni þróast betur ef samgöngum er gert hærra undir höfði. Það er mín sannfæring og eflaust margra annarra.

En þá að samgönguáætluninni sjálfri. Ég vil byrja á að fagna því að svo virðist vera að í meðförum hv. samgöngunefndar hafi verkefnum sem voru mjög aftarlega í áætluninni verið mjakað framar. Eins hefur komið fram í ræðum hér á undan að góður samhljómur hafi verið í nefndinni um að vinna að þeim málum. Mig langar að nefna úr mínu kjördæmi, Norðvesturkjördæmi, vegi eins og Skógarstrandarveg og Vatnsnesveg sem voru úti í fjarskanum eins og áætlunin var lögð fram í haust en hafa nú verið færðir nær í tíma og eru kannski á næsta leiti, eru a.m.k. komnir miklu nær í tíma. Eins eru vegir eins og Kaldadalsvegur, Uxahryggir, Snæfellsnesvegur og Þverárfjallsvegur — sem á nú að fara að bjóða út — komnir framar, svo að eitthvað sé nefnt.

Aðeins er bætt við hafnarframkvæmdir í meðförum nefndarinnar. Hafnir á landinu hafa beðið eftir úrbótum víðast hvar alllengi, þó mismikið eftir stöðum. Ég nefndi uppbyggingu á landsbyggðinni. Þar skiptir miklu máli að hafnaraðstæður séu í samræmi við þörfina á hverjum stað því að afkoma byggðarlaga víðast hvar byggist á því að hafnarmannvirki þjóni tilgangi sínum.

Þá að rekstri almenningssamgangna á landsbyggðinni. Rekstur Strætós úti á landi er mjög erfiður og mörgum sveitarfélögum þungur baggi. Þau þurfa að bera sinn hluta af þeim kostnaði sem að þeim snýr og hafa ítrekað gert ákall til ríkisins um að það komi meira að þeim rekstri. Það er eitthvað sem hefur verið í hálfgerðri störukeppni á fundum. Ég hef sjálfur setið fundi landshlutasamtaka í sambandi við þau mál. Það verður að segjast eins og er að sá rekstur er mjög þungur og eins og ég sagði mörgum sveitarfélögum mjög erfiður og væri kannski ráð að horfa til annarra lausna í þeim efnum.

Mig langar að grípa niður í nefndarálit 2. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar um samgönguáætlun. Það nefndarálit er undirritað af hv. þingmönnum Bergþóri Ólasyni og Karli Gauta Hjaltasyni. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Annar minni hluti tekur undir þær áherslur og sjónarmið sem koma fram í áliti meiri hlutans um að verulega þurfi að herða á framkvæmdum á öllum sviðum samgangna og að leitast verði við að koma til móts við brýna viðhalds- og nýframkvæmdaþörf í samgöngukerfinu. Annar minni hluti leggur áherslu á að verkefnum í samgöngum verði forgangsraðað með tilliti til hagkvæmni þeirra, jafnræðis milli landshluta, byggðasjónarmiða og sjónarmiða um öryggi. Lögð verði áhersla á að stækka einstök atvinnusvæði, rjúfa einangrun og greiða leið íbúa til að sækja þjónustu, ekki síst heilbrigðisþjónustu, án tillits til þess hvar á landinu þeir búa.“ — Þetta eru jafnræðissjónarmið um það að komast í þá þjónustu og komast á milli landshluta, sama hvar fólk býr. — „Annar minni hluti fagnar auknu fjármagni sem áætlað er að verja til samgangna, flugs, hafna og vegabóta og styður þær fyrirætlanir í áliti meiri hlutans. Sérstaklega styður 2. minni hluti viðleitni meiri hluta nefndarinnar til að leita allra leiða til að auka hraða framkvæmda í samgöngukerfinu enn frekar en gert er í samgönguáætlun.“

Þarna komum við að þeim vanda sem ég talaði um í upphafi. Fjárfestingarþörfin hefur aukist og einhvern veginn hefur okkur ekki tekist að minnka þann stabba og eru nú kannski ýmsar skýringar á því, eins og ég kom inn á, hvernig við erum landfræðilega staðsett, í stóru landi og fámennu, en líka það sem upp á hefur komið í efnahagsmálum og öðru slíku. Ég var farinn að vera bjartsýnn um að við værum að komast á betri stað en svo göngum við núna í gegnum kreppu í sambandi við þessa veiru sem hefur sett meira og minna allan heiminn á hliðina og þar af leiðandi hefur það verið mikill kostnaður fyrir hið opinbera. Það er kannski erfitt að henda reiður á hvað sá vandi verður mikill en hann verður örugglega einhver. Ég gladdist yfir því, þegar ég hlustaði á framsögumann meiri hluta samgöngunefndar mæla fyrir nefndaráliti meiri hlutans í gær, að horft yrði til þess að vinna samkvæmt þeirri áætlun sem hefur verið í gangi, en staðan yrði tekin betur í haust þegar framkvæmda- og fjármálaáætlun verður kynnt. Ég vona að það geti staðist sem á horfði áður en við lentum í þessu ástandi. Mér finnst að líta þurfi til þess að þörfin er brýn og við verðum að horfa á uppbyggingu samgangna sem forgangsmál að stórum hluta. Það er ekki gott að missa aftur niður dampinn en ég varð bjartsýnni eftir þá framsögu og eftir að hafa lesið og hlustað á ræðurnar í gær og þann samstarfsvilja sem er í samgöngunefnd um að vinna að þessum málum á þann hátt að menn séu með bringuna fram og beinir í baki.

En það kostar auðvitað allt peninga og í sambandi við fjármögnun á vegaframkvæmdum þá tek ég undir þá leið sem hefur verið talað um, að fara í skuldsetta fjármögnun, þ.e. að ríkið taki lán til að liðka fyrir framkvæmdum. Hafa í því sambandi verið nefndir 150 milljarðar og það má nefna að núna eru vextir í sögulegu lágmarki og sums staðar jafnvel neikvæðir eins og í erlendum myntum. Það er því alveg einboðið að horfa vel til þeirrar leiðar í sambandi við fjármögnun. Það er kannski það sem mér hefur fundist vanta í þessa vinnu, eða ekki vera mjög skýrt tekið fram, hvernig eigi að fjármagna framkvæmdir og er nú oft hætt við því þegar slík umræða tekur langan tíma, og auðvitað hefur hver sitt álit, að það vilji dragast á langinn og erfitt verði að taka ákvarðanir. Mig langar í því sambandi að grípa aftur niður í nefndarálit 2. minni hlutans þar sem segir, með leyfi forseta:

„Annar minni hluti gerir athugasemdir við að vinna við útfærslu á framtíðarfyrirkomulagi gjaldtöku af umferð sé ekki lengra komin en raunin er og telur að það sé mikilvægt að sú vinna liggi fyrir þegar teknar eru ákvarðanir í samgöngumálum sem tengjast m.a. samvinnuverkefnum (PPP) og svokölluðum samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Nauðsynlegt er að kveða skýrt á um viðmiðunarfjárhæð veggjalda sem fyrst. Þar verði nánar fjallað um útfærslu afsláttarkjara og leggur minni hlutinn sérstaka áherslu á lækkaðar álögur á bifreiðaeigendur til móts við þau gjöld. Þegar þessi leið er útfærð ber að forðast margfeldisáhrif innheimtu af þeim sem þurfa að fara um mörg veggjaldahlið, t.d. til að sækja þjónustu til höfuðborgarinnar.“

Þetta finnst mér þurfa að setja fremst í þessa vinnu vegna þess að ekki er hægt að fara í framkvæmdir nema það sé þokkalega fyrirséð hvernig eigi að fjármagna þær, fyrir utan það hvað þær kosta. Ég var fyrir kannski tveimur árum orðinn svolítið bjartsýnn á að við værum komin á góðan rekspöl í þessum málum þegar var verið að ræða um uppbyggingu stofnbrauta á höfuðborgarsvæðinu. Þá var verið að tala um gjaldtökuleiðir og sitt sýndist hverjum í því. En það virtist vera komin sæmileg ró í umræðuna hjá fólki á landsbyggðinni og líka á höfuðborgarsvæðinu þegar umræðan þróaðist og þroskaðist og með þessu móti yrði hægt að flýta samgönguframkvæmdum á landsbyggðinni. Þetta héldist svolítið í hendur við það. En síðan þessi bjartsýni kom til hjá mér hefur ýmislegt annað skeð og ég ætla ekki að koma inn á það í þessari ræðu en geri það kannski síðar í ræðu um stofnun hlutafélags sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Það er í stórum dráttum ágætismál að það verði rammað inn. En það er margt óljóst í því máli og t.d. hefur verið tekist á um borgarlínuna og eins hvernig eigi að fjármagna hana og hvernig þetta eigi allt saman að líta út.

Það er alveg á hreinu að samgöngumál hér á höfuðborgarsvæðinu, þar sem flestir landsmenn búa, hafa setið á hakanum og allir eru sammála um það. Mér finnst svolítið sorglegt að sjá það t.d. að vegaframkvæmdir sem voru nánast komnar á framkvæmdastig fyrir 15 árum eða svo, um Sundabraut, séu komnar mun aftar í ferlið og varla ljóst hvernig á að útfæra þær í dag vegna þess að viljinn til verksins er lítill hjá mörgum aðilum. En ef sá vegur yrði lagður, hvernig sem hann yrði útfærður, hvort sem það yrði brú, göng eða hvernig sem er, myndi það gjörbreyta aðstæðum bæði öryggislega út úr borginni og inn í hana og greiða fyrir samgöngum. Það kæmi Akranesi og Borgarnesi t.d. miklu nær Reykjavík. Þaðan sækir fólk vinnu suður í borgina og ef þessi vegur yrði lagður yrði það miklu auðveldara. Það er svolítið erfitt að átta sig á því hvers vegna þetta hefur gengið til baka. En hinar stofnbrautirnar, suður og út á Reykjanesskaga, eru þó í framkvæmdaferli og gott og vel með það. En Sundabraut er einhvern veginn úti í kuldanum og það er mjög bagalegt. Það er ekkert eðlilegt að allur þunginn á þjóðvegi 1 fari í gegnum Mosfellsbæ, í gegnum öll þessi hringtorg, með allri þeirri slysahættu sem því fylgir og svo því öryggisleysi sem er augljóst að er til staðar vegna þess að eitthvað gæti komið upp á, náttúruhamfarir eða eitthvað sem myndi bara hreinlega loka þeirri leið. Stórsókn í samgöngumálum er alla vega á landsbyggðinni innviðamál númer eitt í mínum huga og þar þarf að gera stórátak. Ég er úr kjördæmi sem er mjög landmikið, það er landmesta kjördæmið en um leið fámennasta kjördæmi landsins. Þar þarf að taka til hendinni, svo að ekki sé meira sagt. En tími minn er búinn, hæstv. forseti, ég ætla að láta þetta gott heita.