150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[18:36]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Skipulagið á borgarlínu og helstu hönnunaratriði ásamt kostnaðarmati liggur vel fyrir. Það hefur gert það lengi og allir geta kynnt sér það. Ég veit það svo sem að við erum báðir, ég og hv. þingmaður, svokallaðir landsbyggðarþingmenn og er þess því kannski ekki að vænta að menn setji sig endilega inn í þessa hluti. En það er eftir sem áður þannig að meiri hluti íbúa landsins býr á höfuðborgarsvæðinu og ég held að allir sæki þjónustu hingað á einhverjum tímapunkti. Það er því eðlilegt að allir, sama hvar á landinu þeir búa eða fyrir hverja þeir tala, setji sig að einhverju leyti inn í þessa hluti. Þess vegna skiptir máli að fólk átti sig á hlutum eins og dulinni eftirspurn, sem er mikilvægt hugtak í samgöngufræðum, þ.e. að fólk átti sig á því að það að breikka veg minnkar ekki endilega tafir á veginum vegna þess að fleiri fara þá af stað sem annars hefðu ekki notað veginn áður. Það er kannski rétt að strætisvagnar voru í raun betri áður en gerð var ákveðin uppstokkun á leiðinni árið 2004, eða þar um bil, og fyrir liggja drög að nýju leiðakerfi strætisvagna sem mun vonandi bæta töluvert úr. En þetta er atriði sem mér finnst erfitt við málflutning þingmanns og margra úr flokknum hans, að það er einhvern veginn látið eins og það að skella niður mislægum gatnamótum hér og þar sé einhvers konar galdralausn. Auðvitað þarf að skoða það allt í ákveðnu samhengi og samhengið byggir á rannsóknum og gögnum. Eitthvað af því liggur fyrir, einhverju þarf að bæta við, en við vitum að ekki er nóg að segja: Já, já, bætum við fleiri mislægum gatnamótum og hunsum öll gögn um t.d. dulda eftirspurn.