150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[21:19]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú verð ég að passa mig því að hv. þingmaður getur ekki komið upp aftur nema í ræðu. Þarna er búið að reikna sér einhvern tímasparnað, tímaábata. Búið er að reikna einhvern umhverfisábata af því að fara þessa leið með … (Gripið fram í.) — Nei, hann vantar, fyrirgefðu. En alla vega er greinilega hægt að reikna hann og auðvitað geta menn reiknað allt mögulegt. (BLG: Já, já.)Kannski getur maður séð það í skýrslunni hvaða forsendur eru að baki reikningi á tímaábatanum og öllu því. Það þarf vitanlega að vera eðlilegt og í lagi, en það er hægt að reikna allt mögulegt.

Það sem ég er líka að velta fyrir mér er kostur þess að — ég tók ekki eftir hvort hv. þingmaður svaraði því nógu skýrt, en ég leita mér þá bara upplýsinga um það — ef maður er búinn að reikna sér einhvern ábata, eins og nefnt var í ræðunni, en maður er hins vegar áfram með strætókerfið sem er í dag, bætir það, fjölgar vögnum, breikkar kannski og býr til sérleiðir fyrir strætisvagna, eitthvað slíkt … (BLG: Það er borgarlínan.) Hún er miklu flóknari, hv. þingmaður. (BLG: Nei.) Þetta er frekar slappt frammíkall. En síðan er hitt, að bæta vegina og greiða fyrir umferðinni. (Gripið fram í.) Það þarf líka að taka með í reikninginn.

En helsta ástæðan fyrir því að ég er persónulega á móti borgarlínu er að ég get bara ekki samþykkt að farið sé í svona stórt og mikið verkefni með opinn tékka fyrir hönd ríkissjóðs. Og það er nákvæmlega það sem þetta verkefni er, vegna þess að hv. þingmaður hefur ekki frekar en aðrir bent á lokatöluna. Hvað mun þetta kosta? Eru það 50 milljarðar eða 100 milljarðar? 150 milljarðar? Verið er að reyna að koma í veg fyrir að ríkið beri rekstrarkostnaðinn af þessu öllu saman. Er það nógu skýrt? Mér finnst það ekki.