150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[22:50]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög fína og góða yfirferð, vel uppbyggða ræðu. Ég staldraði aðeins við það að hann flokkaði þetta með þeim hætti að það væru ákveðnir þættir sem væru jafnsettir og áður. Það væri framför á einhverjum stöðum og afturför á öðrum. Hann nefndi sérstaklega að hann vildi ekki vera neikvæður, en það er nú kannski hans hlutverk, það verður að viðurkennast, maðurinn situr í stjórnarandstöðu.

Ég hjó sérstaklega eftir umræðunni um flugvellina. Það er margt áhugavert þar, allt frá tölum um hvort þeir skuli teljast 13 eða 14. En ef ég skildi ræðu hv. þingmanns rétt þá er það kannski ein veigamesta gagnrýnin hvað varðar afturför í þeim málaflokki. Ég hef áhuga á að heyra aðeins betur og nánar frá þingmanninum annars vegar hvað truflar hann helst í því samhengi og, sem er kannski stóra spurningin sem er mikilvæg í pólitísku samhengi, hvað það er sem hv. þingmaður sér fyrir sér að við getum gert betur þar miðað við þau spil sem við höfum á hendi í dag og einnig til lengri tíma litið. Því að auðvitað eru samgöngumálin alltaf þannig, hvar sem gripið er niður, að við verðum að horfa til framtíðar.