150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:08]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður var með býsna skemmtilega og nýstárlega nálgun á flug og ég ætla að halda mig þar. Nú hef ég kannski ekki fylgt meginstraumi sjónarmiða í mínum heimabæ, Akureyri, í afstöðu minni til flugvallarmála. Ég hef litið þannig á að það sé samfélagslega mikilvægt verkefni að við sættum sjónarmið, sjáum kostina og virðum í rauninni vilja Reykjavíkurborgar til að nýta svæðið undir betri byggð en finnum jafnframt kosti í stöðunni fyrir landsbyggðina. Er hv. þingmaður ekki sammála mér um það, því að hann er sérfræðingur í tengingu, að það væri að mörgu leyti miklu betra fyrir landsbyggðina og dreifingu ferðamanna út á land (Forseti hringir.) ef við gætum byggt flugvöll aðeins utan Reykjavíkursvæðisins? Kannski flygi fólk beint þangað (Forseti hringir.) og gæti haldið áfram án þess að þurfa að fara allar þessar krókaleiðir á milli flugvalla.