150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

seinni bylgja Covid-19, svör við fyrirspurnum.

[10:39]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Forseti. Í morgun var smitsjúkdómalæknir í viðtali í Bítinu á Bylgjunni þar sem verið var að ræða svokallaða seinni bylgju, mögulega, af Covid-sjúkdómnum sem herjað hefur á okkur. Þar kom fram að mögulegt væri að jafn margir myndu veikjast, það gæti orðið svipað og var í mars og apríl þegar bylgjan skall á okkur. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra í ljósi þessa hvort uppi séu plön um hvernig bregðast eigi við, verði þessi seinni bylgja jafn hastarleg og kann að verða. Munum við þurfa að loka landinu aftur? Eru það viðbrögð sem eru í undirbúningi? Ég velti líka fyrir mér, hæstv. ráðherra, að nú stendur til að eyða fjármunum í að auglýsa landið upp á nýtt. Hvaða áhrif hefur það á þá herferð ef við þurfum að loka landinu aftur? Hafa menn hugsað út í það? Það er fyrri spurningin.

Seinni spurningin kemur úr allt annarri átt. Fyrir rúmlega 150 dögum var samþykkt hér fyrirspurn til ráðherra varðandi Samkeppniseftirlitið. Þetta eru þrjár tiltölulega einfaldar spurningar um Samkeppniseftirlitið, hvernig það hagar störfum sínum. Nú eru liðnir 150 dagar og enn hefur ekki borist svar við þessum þremur spurningum.

Mig langar að spyrja ráðherrann: Er það vegna þess að ráðuneytið svarar ekki eða fást ekki gögn frá Samkeppniseftirlitinu um þessar spurningar? Þær eru í grófum dráttum þessar: Hve oft hafa utanaðkomandi aðilar verið settir til að hafa eftirlit með samruna? Hvaða aðilar eru þetta? Hvað hefur verið greitt fyrir þessa þjónustu? Mér finnst mjög sérstakt ef ekki er hægt að tína saman svör við þessum einföldu spurningum á 150 dögum. Mig langar að vita: Hvar liggur vandinn?