150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

fullgilding valkvæðs viðauka við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

620. mál
[11:07]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Herra forseti. Fyrir nánast einu ári samþykkti Alþingi tímamótatillögu sem við hæstv. ráðherra, sem þá var bara óbreyttur þingmaður, lögðum fram um að samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks ætti að lögfesta. Í tillögunni kemur skýrt fram að markmiðið sé að lögfesta samninginn fyrir 13. desember nk. Ég treysti, herra forseti, að Stjórnarráðið sé á fullu gasi við að undirbúa þá gríðarlegu miklu réttarbót sem lögfestingin er. Með því yrði Ísland eitt fyrsta landið í heimi til að lögfesta þennan samning. En ég spyr hér um annan anga þessa máls. Þann 20. september 2016 var samþykkt í þessum sal að hinn svokallaði valkvæði viðauki þessa sama samnings yrði fullgiltur. Samkvæmt þeirri samþykkt Alþingis átti fullgildingunni að vera lokið fyrir árslok 2017. Það er langt síðan.

Valkvæði viðaukinn mælir fyrir um kæruleiðir fyrir einstaklinga og hópa sem telja að íslensk stjórnvöld hafi ekki veitt þeim þann rétt sem þeim ber samkvæmt samningnum og hafa árangurslaust nýtt þau úrræði sem þeir hafa. Með því að fullgilda þennan valkvæða viðauka verður virkara aðhald með ríkjum um að framfylgja samningnum, réttaröryggi fatlaðs fólks verður meira og mannréttindi þess betur varin og finnst mörgum ekki veita af.

Herra forseti. Nú er kominn júní 2020 og enn hefur þessi valkvæði viðauki, þessi mikilvægi viðauki, ekki verið fullgiltur eins og við samþykktum í þessum sal að við ætluðum að gera og eigum að gera. Við samþykktum það 2016.

Ég vil nefna sérstaklega að Páll Valur Björnsson, fyrrverandi þingmaður og varaþingmaður, hélt lengi þessari samþykkt á lofti og vil ég hrósa honum sérstaklega fyrir það. Fyrir einu ári spurði hann Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra um þessi mál og þá sagði forsætisráðherra:

„Ég get ekkert sagt annað en það að ég tek brýningu hv. þingmanns og mun ræða málið við hæstv. dómsmálaráðherra sem væntanlega fer með þetta mál samkvæmt verkaskiptingu ráðuneyta. Vilji Alþingis liggur fyrir í þeirri tillögu sem hv. þingmaður nefnir hér og það er mjög mikilvægt að sá vilji verði fullnustaður.“

Boltinn er því hjá dómsmálaráðherra. Þess vegna spyr ég, herra forseti: Hver er staðan á þessu máli? (Forseti hringir.) Mun viðaukinn verða fullgiltur og þá hvenær? Eða verður hann jafnvel lögfestur (Forseti hringir.) eins og Alþingi hefur samþykkt að eigi að gera við sjálfan samninginn?