150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

fullgilding valkvæðs viðauka við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

620. mál
[11:14]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Herra forseti. Núverandi dómsmálaráðherra er mjög mikilvægur bandamaður í þessum málaflokki, hefur sýnt það í verki. Ég bind miklar vonir við að hún fullgildi þennan vilja þingsins sem var staðfestur fyrir fjórum árum um að valkvæða viðaukann ætti að fullgilda. Það virtust vera efasemdir hjá fyrirrennara hv. þingmanns varðandi það. Þess vegna langar mig að spyrja algerlega skýrt: Stendur ekki til af hálfu dómsmálaráðherra að fullgilda valkvæða viðaukann? Hver er hin pólitíska skoðun ráðherrans hvað það varðar?

Hún vísar í að hún þurfi að ljúka ákveðnum greiningum og kostnaðarmati. Gott og vel. Ég treysti því að það verði gert hratt og vel og verði gert í sumar og haust því að 13. desember nálgast. Hvaða dagsetning er það? Það er sú dagsetning sem lýtur að því að sjálfri lögfestingunni á samningnum sjálfum á að vera lokið.

Mig langaði að skjóta inn annarri spurningu til ráðherra: Stendur það ekki algerlega til að standa við þá dagsetningu? Það skiptir gríðarlega miklu máli að staðið sé við þann vilja þingsins að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði lögfestur. Það er mikill munur á lögfestingu og fullgildingu. Ég ætla ekki að fara í það en það er gríðarlega mikill munur á því hvort alþjóðasamningur sé lögfestur eða fullgiltur. Til að setja það í ákveðið samhengi þá hefur Ísland í raun bara lögfest þrjá alþjóðasamninga. Við höfum gert fullt af alþjóðasamningum og fullgilt þá en við höfum bara lögfest barnasáttmálann, mannréttindasáttmála Evrópu og svo EES-samninginn. Með samþykkt tillögu okkar um að samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks beri að lögfesta erum við að setja þann samning á sama stall og þessa risastóru alþjóðasamninga sem við höfum lögfest; barnasáttmálann, mannréttindasáttmála Evrópu og EES-samninginn. Bara svo að fólk átti sig á þeim tímamótum sem það skref var sem við stigum í fyrra og hvað það skiptir gríðarlega miklu máli, þegar við samþykktum þingsályktunartillögu mína (Forseti hringir.) um að samninginn ætti að lögfesta.

(Forseti hringir.) Ég ítreka spurninguna í upphafi míns máls um hina pólitísku afstöðu ráðherrans til þess að klára fullgildingu valkvæða viðaukans.