150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

fullgilding valkvæðs viðauka við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

620. mál
[11:16]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Við þurfum auðvitað að kanna varðandi valkvæða viðaukann, sem ég sjálf þekki kannski aðeins minna en samninginn sjálfan, hvaða árangur myndi hljótast af því að fullgilda hann. Niðurstaðan sem kæmi út úr slíkri kæru þarf að vera traust fyrir þann aðila sem leggur mál sitt í þann farveg, bæði að niðurstaðan uppfylli kröfur sem við gerum til úrlausnar dómstóla og að ekki séu óraunhæfar væntingar um hvað komi út úr slíkri niðurstöðu sem er ekki endilega bindandi eftir það. Það er þetta sem ég myndi vilja kanna betur og skoða hvaða áhrif hefði og hvaða árangur hlytist af, hvernig þetta samræmist okkar kerfi í dag og hverju fullgildingin myndi í raun bæta við. Það er sú greining sem ég er að vinna að og sama vinna er í gangi við samninginn, þessi skoðun og samráð, m.a. varðandi kostnaðarmat. Við erum auðvitað að endurmeta öll útgjöld eftir ástandið sem uppi hefur verið síðustu vikur.