150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

hugtakið mannhelgi.

627. mál
[11:31]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka þeim þingmönnum sem hafa tekið þátt í þessari stuttu umræðu og hæstv. ráðherra fyrir hennar svör. Eins og þingmenn hafa komið inn á er hægt að teygja sig í ýmsar áttir þegar hugtakið er skilgreint eða jafnvel bara þegar það er rætt. Ég fyrir mitt leyti tek undir með ráðherra að það kunni að vera mjög erfitt að festa hönd á nákvæmlega hvað við eigum við og ekki síður kann að vera skynsamlegt að leyfa því að vera þannig vegna þess að með tíð og tíma og með þróun í samfélaginu kunna viðhorf að breytast. Það er mikilvægt.

Ég lýsi að mínu leyti ákveðnum vonbrigðum með að menn skuli blanda í þetta umræðu um þungunarrof sem varð hér fyrir hálfu öðru ári síðan og velja að halda þar algerlega fyrir utan þeim réttindum sem konur fengu í því stóra og mikilvæga máli og ég ætla að skilja þá umræðu hreinlega eftir þar.

Tengsl mannhelgishugtaksins við eignarréttinn, eins og hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason kom inn á, eru athyglisverður vinkill en ég ætla ekki að spinna þann þráð lengra.

Varðandi vangaveltur hv. þm. Guðjóns S. Brjánssonar um stjórnarskrána og skilgreiningu þar er það einmitt nokkuð sem ég og hæstv. forsætisráðherra ræddum fyrr í vetur, það sama hugtak. Það er áhugaverður vinkill. Mér finnst að það ætti að ræða í stjórnarskrárvinnunni. Ég er hins vegar ekki kominn (Forseti hringir.) á þann stað að mér þyki að það ætti að skilgreina það í stjórnarskrá.