150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

heimilisofbeldi.

883. mál
[11:45]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrirspurnina og umræðuna og ráðherra fyrir svörin. Heimilisofbeldi er mikið böl sem við glímum við og beinist oftast nær, ég þekki ekki alveg hlutföllin, að konum og börnum. Því miður er það þannig þó að væntanlega séu dæmi um annað.

Sýnt hefur verið fram á tengsl milli efnahagsástands, kreppu, og faraldurs eins og nú er í gangi og ofbeldis, þ.e. að ofbeldi eykst á tímum eins og þessum. Mér fyndist því áhugavert ef ráðherra gæti velt því upp fyrir okkur eða tekið það sem ábendingu að rannsaka þessi tengsl og fylgni sérstaklega vel og undirbúa þá mögulega aðgerðir sem hægt væri að grípa til þegar næsti faraldur eða næsta kreppa gengur yfir okkur því að það gerist reglulega. Það er mikilvægt að læra af því sem nú er að gerast, laga það sem hægt er að laga og vera viðbúin.