150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

um fundarstjórn.

[12:22]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Frú forseti. Mér finnst rétt að geta þess hér í ljósi umræðu sem varð áðan undir þessum lið að hæstv. heilbrigðisráðherra hefur fullkomlega eðlilega og lögmæta ástæðu fyrir því að vera ekki með okkur hér í dag og fylgja henni og öllum hennar bestu óskir. En það breytir ekki því að það er ekki gott ef hæstv. ráðherra dregur það vikum saman að koma fyrir velferðarnefnd, eins og hún hefur gert undanfarið. Það er ekki gott. En ég vil ítreka, og tel rétt að það komi fram, að í dag hefur ráðherrann fullkomna ástæðu fyrir því að vera ekki hér, bara svo að það sé skýrt.