150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

staðsetning starfa.

904. mál
[12:33]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Fyrr í vetur lagði ég fram þingsályktunartillögu um söfnun upplýsinga um dreifingu starfa. Á þessari tillögu eru þingmenn úr öllum flokkum auk þess þingmanns sem stendur utan flokka. Tillagan felur í sér að gera Hagstofu Íslands kleift að taka saman gögn um dreifingu starfa um landið vegna þess að þegar kemur að slíkum gögnum stöndum við höllum fæti í samanburði við önnur lönd. Töluverð eftirspurn er eftir slíkum gögnum hjá fagaðilum og hagsmunaaðilum enda bárust mjög jákvæðar umsagnir um málið.

Til viðbótar við mikilvægi slíkrar upplýsingasöfnunar í tengslum við uppbyggingu á samgöngumannvirkjum skiptir hún máli þegar kemur að byggðarannsóknum, vinnumarkaðsrannsóknum og öðrum samfélagslegum rannsóknum ef marka má markmið umræðunnar hjá hv. þm. Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur og svör hæstv. dómsmálaráðherra.

Mig langar að nota tækifærið hér og hvetja til þess að þetta ágæta mál hljóti brautargengi. Lykillinn að því að þau markmið, (Forseti hringir.) sem hér eru sett, nái fram að ganga hlýtur að vera að við vitum hvað (Forseti hringir.) við erum raunverulega að tala um, hvernig störfin dreifast og hvernig þau hanga saman (Forseti hringir.) við búsetu fólks og vænta búsetu.