150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

staðsetning starfa.

904. mál
[12:35]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu. Ég vil einnig taka undir með hæstv. ráðherra þegar hún nefnir að færsla starfa út á land sé í bígerð og það hefur reyndar verið lengi. Landsbyggðin hefur mátt búa við það í áratugi að horfa á eftir stöðugum straumi fólks á höfuðborgarsvæðið. Það er auðvitað fyrst og fremst vegna atvinnutækifæra sem finnast hér á höfuðborgarsvæðinu. Þau hafa þvílíkt aðdráttarafl að allir vilja koma hingað. Það má ekki ræða þessa hluti eins og störf úti á landsbyggðinni eigi að vera einhvers konar ölmusa. Ég vara við að þetta sé rætt á þeim nótum. Ég held að það verði að líta á netið og ný atvinnutækifæri sem tækifæri og vil benda á hugmynd um að færa stofnanir og ráðuneyti. (Forseti hringir.) Nú er tækifæri til að færa einhver þeirra út á land (Forseti hringir.) vegna þess að fjarfundir og tölvuvinnsla eru auðveldari nú. (Forseti hringir.) Það á að virka í báðar áttir.