150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

staðsetning starfa.

904. mál
[12:38]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Albertína Friðbjörg Elíasdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og þeim hv. þingmönnum sem tóku þátt í þessari góðu og að mínu mati mikilvægu umræðu. Ég fagna því auðvitað að hæstv. ráðherra tali hér um aukna rafræna stjórnsýslu og sjái tækifærin sem í henni felast. Það sýndi sig svo vel í Covid-faraldrinum að allt í einu gátu ótrúlegustu hlutir og ótrúlegustu fundir átt sér stað í gegnum internetið. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að fylgja eftir þeirri reynslu og nýta hana til að byggja til framtíðar og fara að hugsa hlutina svolítið öðruvísi.

Ég fagna því líka sem hæstv. ráðherra sagði um að nýta sýslumannsembættin betur, nýta mannauðinn. Hann er um allt land og nægir kraftar til að vinna að alls kyns verkefnum. Þar eru aukin tækifæri en þau hverfa auðvitað ef við grípum þau ekki og ég skora á hæstv. ráðherra að vinna að því. Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni eru gríðarleg tækifæri í sterkum kjörnum um allt land og ég held að sterkt höfuðborgarsvæði og sterk landsbyggð séu raunverulega lykillinn að auknu jafnvægi í landinu. Við eigum einmitt ekki að vera að stilla þeim upp sem andstæðum og alls ekki að tala um að störf, hvort sem er á höfuðborgarsvæðinu eða á landsbyggðinni, séu einhvers konar ölmusa.

Frú forseti. Að lokum langaði mig að þakka aftur fyrir umræðuna en líka að minna hæstv. ráðherra á að enn liggur inni í ráðuneytinu fyrirspurn mín um mögulegan flutning starfsþróunarseturs lögreglunnar til Akureyrar(Forseti hringir.) og ég hlakka til að fá (Forseti hringir.) svar við þeirri fyrirspurn líka.