150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

staðsetning starfa.

904. mál
[12:40]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa góðu umræðu. Það er lykilatriði að í þessu felst fyrst og fremst áhersla á að auka rafræna þjónustu. Það mun bæta þjónustuna og meðferð opinbers fjár en sýn mín á sýslumannsembættin er líka að þau séu öflug embætti á sínu svæði, sem fyrst og fremst þjónusta fólk, sama hvaða fólk leitar þangað, hvar sem það hefur lögheimili þannig að það geti leitað til þess sýslumannsembættis sem næst er og geti fengið afgreiðslu sinna mála, sama hvaða mál það er. Það getur þá verið sent til afgreiðslu hvar sem er á landinu þar sem rafræn þjónusta er veitt. Ég held að þarna sé gullið tækifæri af því að það skilar ekki bara fleiri störfum án staðsetningar heldur líka og fyrst og fremst bættri þjónustu og ekki bara úti um allt land heldur myndi þetta líka létta verulega á embættinu á höfuðborgarsvæðinu þar sem væri hægt að stytta biðtíma og annað í hinum ýmsum málum sem þar heyra undir.

Ég var spurð sérstaklega um þinglýsingar. Ég hef farið í sérstakt átak til að hraða því ferli en hægt hefur gengið að koma því á fót enda ýmislegt sem þarf að gera tæknilega svo að það gangi allt saman upp. En ég hef hug á því að skoða hvort annað sýslumannsembætti en á höfuðborgarsvæðinu gæti tekið að sér rafrænar þinglýsingar að fullu.

Tollamál heyra síðan undir fjármálaráðherra en ég ítreka þessa sýn mína á sýslumannsembættin í heild sinni og tek undir með hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson um að auðvitað þurfi líka að liggja fyrir skýrar greiningar og það eru greiningar sem ég er líka að gera sérstaklega á sýslumannsembættunum, hvar sé hægt að styrkja, nýta fjármuni betur, nýta fólk betur og auglýsa síðan störf án staðsetningar.