150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

framkvæmdir á vegum NATO hér á landi.

825. mál
[12:59]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Páll Magnússon) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla kannski ekki að eyða löngum hluta af takmörkuðum tíma mínum í að lesa upp þessar fimm spurningar sem ég beindi til hæstv. utanríkisráðherra. Þær er að finna á þskj. 1449 og snúast um framkvæmdir á vegum NATO hér á landi, bæði þær sem standa yfir og þær sem eru fram undan. Tilefni spurningarinnar var hins vegar frétt fyrir nokkrum vikum þess efnis að það kunni að vera möguleiki að flýta framkvæmdum á vegum NATO á Keflavíkurflugvelli og í Helguvík, þar með töldum borgaralegum framkvæmdum á svæði þar sem atvinnuleysi er nú 25%. Nú geri ég mér fulla grein fyrir því að varnarhagsmunir eða varnarsjónarmið ráðast ekki af því hversu mikið atvinnuleysi er á hverjum tíma á Suðurnesjum. Hitt er alveg ljóst að það er jafn sjálfsagt að taka tillit til atvinnuástands, ekki síst með borgaralegar framkvæmdir sem þegar eru ákveðnar, ef hægt er að flýta þeim. Þess vegna gæti ég svo sem auðveldlega einfaldað eða fækkað þessum fimm spurningum til hæstv. utanríkisráðherra niður í eina: Er flýting á þessum framkvæmdum möguleg af hálfu NATO og ef svo er, hvað stendur þá í vegi fyrir því að ráðist verði í það?