150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

framkvæmdir á vegum NATO hér á landi.

825. mál
[13:01]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar sem eru bæði mikilvægar og tímabærar og í takt við aukið mikilvægi Íslands og þær áherslubreytingar sem orðið hafa á öryggis- og varnarmálum síðastliðin ár. Fyrst er spurt: Að hvaða verkefnum í varnarmálum er unnið hér á landi í samstarfi íslenskra stjórnvalda við Norður-Atlantshafsbandalagið (NATO) og bandarísk stjórnvöld? Almennt má skipta framkvæmdum í fjóra flokka: Það eru framkvæmdir kostaðar af NATO, framkvæmdir kostaðar af íslenskum stjórnvöldum, framkvæmdir kostaðar af bandarískum hernaðaryfirvöldum og framkvæmdir kostaðar í samvinnu framangreindra aðila. Nú eru sex samþykkt verkefni í útboði og í framkvæmd. Ég ætla að fara í gegnum tölurnar eins og þær liggja fyrir núna, en menn skulu hafa í huga að slíkt getur breyst með gengisbreytingum.

Svo farið sé í fyrstu framkvæmdirnar þá eru það breytingar og endurbætur á flugskýli 831. Þar er heildarframlagið 1,8 milljarðar kr. Af því bera bandarísk hermálayfirvöld 1,3 milljarða kr., NATO um 200 millj. kr. og Íslendingar 270 millj. kr. Þá er það bygging þvottastöðvar og þar er heildarframlagið 613 millj. kr. sem er fjármagnað af bandarískum yfirvöldum. Númer þrjú er viðhald og endurbætur á flugbrautum, hlöðum, akstursbrautum og ljósakerfi. Það er rúmlega 3,1 milljarður kr. Af því leggja bandarísk hernaðaryfirvöld til 2 milljarða kr. og NATO 1,1 milljarð kr. Í fjórða lagi er það stækkun og bygging flughlaðs og aðstaða fyrir gámabyggð. Það er kostnaður upp á 8,1 milljarð kr. sem er fjármagnaður af bandarískum hernaðaryfirvöldum. Í fimmta lagi er það uppfærsla á ratsjárkerfum sem eru tæplega 4 milljarðar kr. Þar af fjármagnar NATO tæplega 3,5 milljarða kr. og íslensk yfirvöld 470 millj. kr. Síðan er það hugbúnaðaruppfærsla upp á rúmlega 3,8 milljarða kr. og það er annars vegar NATO sem er með 3,1 milljarð kr. og síðan eru íslensk yfirvöld með rúmlega 700 millj. kr. af því.

Þegar hv. þingmaður spyr hvaða framkvæmdir hafi verið ákveðnar eða kunni að vera fram undan er rétt að taka fram að engar formlegar ákvarðanir hafa verið teknar um frekari framkvæmdir. En það liggur fyrir að hér er hins vegar um að ræða töluverða uppsafnaða viðhaldsþörf. Bara til að setja þetta í eitthvert samhengi þá er hér um að ræða 140 mannvirki, sem eru bæði lítil og stór, og mörg þeirra nýtast, eins og hv. þingmaður kom inn á, í borgaralegum tilgangi. Þegar þau eru afskráð þá fara þau til íslenska ríkisins. Til að setja það í eitthvert samhengi voru um 563 mannvirki til staðar þegar varnarliðið fór. Fyrst hv. fyrirspyrjandi og þingmaður spyr um framhaldið og framtíðina þá eru þessi mál alltaf til skoðunar og á þessum tíma eins og áður fer fram ítarleg greiningarvinna á þessum hlutum. Ef menn komast hins vegar á þann stað að taka þurfi einhverjar ákvarðanir eða eitthvað slíkt þá fer það í gegnum hefðbundinn feril, eins og við þekkjum.