150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

framkvæmdir á vegum NATO hér á landi.

825. mál
[13:13]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Páll Magnússon) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þeim þingmönnum sem hér hafa tekið til máls og sérstaklega hæstv. utanríkisráðherra fyrir greinargóð svör um framkvæmdirnar sem nú eru í gangi á þessu svæði. Þetta snýst ekki um aukin útgjöld til vígbúnaðar eins og kom fram í máli þingmanna áðan. Lenging á viðleguköntum í Helguvík eða viðhald á húsakosti á Keflavíkurflugvelli snýst ekki um aukin útgjöld til vígbúnaðar. Þetta snýst um að uppfylla þær skyldur sem við höfum samkvæmt varnarsáttmálanum og vegna þátttöku okkar í NATO sem aftur er partur af samþykktri þjóðaröryggisstefnu Íslendinga.

Þetta snýst ekki um aukin hernaðarumsvif á Íslandi heldur um það hvort og þá með hvaða hætti hugsanlega væri hægt að flýta m.a. þeim borgaralegu framkvæmdum sem ég nefndi hér til sögunnar í ljósi þeirra aðstæðna sem ríkja og ég tók það sérstaklega fram að uppfylling á varnarsáttmálanum eða þjóðaröryggisstefnunni tæki svo sem ekki endilega mið af því atvinnuástandi sem nú ríkir á Suðurnesjum. En þegar um er að ræða framkvæmdir sem eru nauðsynlegar til að við uppfyllum þann hluta samningsins sem að okkur snýr og hugsanlega væri möguleiki á að flýta sé ég enga goðgá í að gera það. Það er ekki verið að ræða hér um aukin hernaðarumsvif eða aukin útgjöld til vígbúnaðar.