150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

framkvæmdir á vegum NATO hér á landi.

825. mál
[13:14]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka bæði fyrirspyrjanda og hv. þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni. Bara svo það liggi fyrir þá er það sem ég fór yfir samþykkt og komið í framkvæmd, þ.e. þær upphæðir sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson fór rétt með, eru samþykktar og framkvæmd hafin. Það hefur ekki verið neitt viðlíka í viðhaldsframkvæmdum í áratugi, langt frá því. Ef við hugsum um hver ávinningur okkar er þá er hann sá að við erum í öflugasta varnarbandalagi í heimi. Ef við segjum að við eigum ekki að vera þar þurfum við að svara því hvað annað við eigum að gera í staðinn. Menn verða að svara þeirri spurningu því að engin þjóð vill vera varnarlaus og ég veit ekki til þess að nein þjóð hafi það á stefnuskrá sinni, sama hvar hún er í heiminum, að vera varnarlaus. Bara svo að það sé líka sagt, og það er ekkert séríslenskt, þá hafa margar af þessum framkvæmdum — þetta eru um 140 mannvirki — nýst til borgaralega athafna í gegnum tíðina. Það þykir, og er auðvitað, fullkomlega eðlilegt. Ljósleiðarinn úti um allt land er framkvæmd sem fjármögnuð var af Atlantshafsbandalaginu á sínum tíma. Við getum nefnt hafnir eins og Helguvík, og flugbrautir, svo eitthvað sé nefnt. Þó svo að við séum ekki í þessu varnarsamstarfi af efnahagslegum ástæðum þá er miklu betra að við séum að fara í þessar framkvæmdir núna, í þeirri stöðu sem við erum, en ef mikil sveifla hefði verið í efnahagslífinu. Það bara segir sig sjálft. En stóra einstaka málið er þetta: Þetta eru mannvirki sem eru eins og öll önnur mannvirki; ef þeim er ekki haldið við þá kemur viðhaldsþörf. Það er nákvæmlega eins með þessi mannvirki og öll önnur. Ég treysti því og trúi að við munum taka góða og málefnalega umræðu um þessi mál, ekki bara núna heldur sem oftast hér í sölum Alþingis.