150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

opinber störf og atvinnuleysi.

884. mál
[13:34]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigurður Páll Jónsson) (M):

Hæstv. forseti. Ég er landsbyggðarþingmaður og mikill áhugamaður um uppbyggingu á landsbyggðinni. Það má til gamans geta þess að við í Miðflokknum erum það öll og lögðum sérstaka áherslu á það í kosningabaráttunni árið 2017 hvernig standa mætti að uppbyggingu á landsbyggðinni. Í því sambandi langar mig að beina spurningum til hæstv. ráðherra um opinber störf sem gætu verið á landsbyggðinni. Það er ánægjulegt að sjá að í vinnslu hjá ríkisstjórninni er undirbúningur að opinberum störfum og það er spurning hvar hægt er að koma þeim fyrir, hvort landsbyggðin gæti komið þar til greina. Þess má geta að töluvert af opinberum störfum er úti á landi og þar má nefna t.d. Byggðastofnun, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Matvælastofnun, Landmælingar Íslands, þýðingar fyrir utanríkisráðuneytið, Fæðingarorlofssjóð, Vinnumálastofnun og svo mætti áfram telja og er það vel.

Það er oft þannig með opinber störf að viðkomandi sveitarfélög þurfa oft að verja þau og það kemur of oft fyrir að störfin hverfa til höfuðborgarsvæðisins. Það er oft fyrirvaralaust og veldur viðkomandi byggðarlögum skaða því að uppbygging hlýtur að byggjast á atvinnu fyrst og fremst þannig að allar hugmyndir um uppbyggingu á landsbyggðinni eru í mínum huga mjög áhugaverðar. En spurningarnar sem ég lagði fyrir eru tvær:

1. Hversu mörg opinber störf hafa verið auglýst á þessu ári, annars vegar á höfuðborgarsvæðinu og hins vegar á landsbyggðinni?

2. Hvernig telur ráðherra að ríkið geti unnið gegn atvinnuleysi á landinu eftir Covid-19 faraldurinn? Kæmi til greina að byggja upp ný störf á landsbyggðinni?

Mér þætti vænt um að fá góð svör við því.