150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

opinber störf og atvinnuleysi.

884. mál
[13:37]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér mikilvægan þátt í opinberu stjórnsýslunni, í þróun opinberra starfa á landinu. Þar á ég við að við eigum að fylgjast reglulega með fjölda þeirra, tegund þeirra, hvar þau eru að verða til, hvers vegna þau verða til þar sem þau verða til o.s.frv. Ég vil byrja á því að segja að í starfalegu samhengi, ef maður mætti orða það þannig, og þá er ég ekki bara að vísa í opinber störf, stöndum við á mjög miklum tímamótum. Þær tæknibreytingar sem eru að eiga sér stað, og það hefur ekki síst sýnt sig í viðbrögðum við Covid-19 heimsfaraldrinum, eru slíkar að það er allt að breytast. Við eigum og getum hagnýtt okkur tæknina til þess að gera starfsemi hins opinbera sveigjanlegri, alveg eins og við sjáum að atvinnulífið gerir. Og ég vil meina að við séum að gera þetta upp að vissu marki. Þetta held ég að við höfum öll séð og lært, líka við hér á þinginu. Sannarlega hefur þetta verið þannig í ráðuneytinu hjá mér og í öðrum ráðuneytum. En laus störf hjá stofnunum ríkisins eru auglýst á vefnum starfatorg.is. Svarið við fyrirspurn hv. þingmanns miðast við birtar auglýsingar þar það sem af er þessu ári. Það tekur ekki til starfa á vegum sveitarfélaga eða annarra opinberra aðila. Þetta eru sem sagt stofnanir ríkisins sem ég er hér sérstaklega að greina frá, en frá áramótum hafa eitt 1.009 störf verið auglýst á starfatorgi og það má segja að hlutfallið sé nánast jafnskipt milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar, 515 störf á höfuðborgarsvæðinu, 503 störf annars staðar á landinu. Ég hef væntingar um að starfstækifærin verði enn fleiri á landsbyggðinni á næstunni, ekki síst í ljósi þess sem ég var hér að rekja, að fjarvinna er orðin raunhæfari kostur og við erum með nýfengna reynslu af fjarvinnslu af ýmsu tagi. Stjórnendur hafa fengið æfingu og jafnvel sjálfstraust í að skipuleggja slíkt vinnufyrirkomulag og það hefur tekist með farsælum hætti. Þess háttar fyrirkomulag tel ég að muni ekki síst nýtast íbúum á landsbyggðinni þegar störf hjá hinu opinbera losna. Ég kem vonandi aðeins aftur að þessu atriði síðar í mínu svari.

Spurt er hvernig ríkið geti unnið gegn atvinnuleysi. Það er alveg ljóst að þessi heimsfaraldur hefur víða valdið miklum búsifjum hér á landi. Við höfum hins vegar verið að byggja upp sterka fjárhagsstöðu til að takast á við erfiðari tíma á undanförnum árum og erum núna að nýta af miklum þunga, bæði í peningamálum og ríkisfjármálum, þessa góðu stöðu. Þar gerum við til að mynda mótvægi og skjól fyrir fyrirtæki og að sjálfsögðu heimilin til að verja þau gegn fyrstu efnahagslegu áhrifunum af völdum veirunnar. Það má vera að þörf verði fyrir áframhaldandi mótvægisaðgerðir af hálfu stjórnvalda næsta haust, þá er ég að vísa í sérstakar sértækar aðgerðir, og næsta vetur þegar það verður komið betur í ljós hversu mikið af atvinnustarfsemi landsins fer forgörðum, sérstaklega í ferðamennskunni. Kostnaður við þessar aðgerðir verður meiri en við eigum eldri dæmi um. Stærstur hluti kostnaðarins felst í því að bæta upp tekjumissi þeirra sem hafa orðið fyrir skerðingu eða atvinnumissi, hvar sem þeir búa á landinu. Því miður er útlit fyrir að í stað fyrra jafnvægis í þjóðarbúskapnum myndist einn mesti framleiðsluslaki í nútímahagsögu. Helsta birtingarmynd þess er atvinnuleysi sem gæti jafnvel orðið meira en eftir fall bankakerfisins haustið 2008. Þetta er efnahagslega aðalviðfangsefnið í dag. Þótt skellurinn orsakist af tímabundnu ytra áfalli er viðbúið að hann muni hafa áhrif á eftirspurn í mun lengri tíma en út þetta ár.

Við þessar aðstæður er þess vegna afar mikilvægt að við mótum áætlun um endurreisn efnahagslífsins og opinberra fjármála sem verði til þess fallin að örva hagvöxt og atvinnusköpun á landsvísu þar sem við verðum fyrst og fremst með augun á atvinnustiginu. Slík stefnumörkun og áætlanagerð mun koma mikið við sögu við vinnu að nýrri fjármálaáætlun og fjármálastefnu sem fram undan er sem ég vænti þess að leggja fyrir þingið í haust.

Ég vil alveg í blálokin nefna að við erum með verkefni í gangi sem snýr að því að fela ráðuneytum og stofnunum að skilgreina störf og auglýsa þau án staðsetningar eins og kostur er. Þar er markmiðið að 5% allra auglýstra starfa í ráðuneytum og stofnunum verði án sérstakrar staðsetningar fyrir árslok næsta árs og í árslok 2024 verði hlutfallið komið upp í 10%.