150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

opinber störf og atvinnuleysi.

884. mál
[13:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil fyrst svara vangaveltum um hvata sem stjórnvöld gætu beitt. Ég myndi kannski segja sem svar við því að það sem stjórnvöld hafa sögulega verið að gera er að koma með fjárfestingarsamninga. Þegar við skoðum helstu forsendur þess að gera slíka fjárfestingarsamninga eru það oft á tíðum þær að það sé réttlætanlegt með tilliti til atvinnuástandsins á viðkomandi svæðum og stuðningurinn falli vel að markmiðum um að dreifa störfum um allt landið og efla atvinnustigið. Þannig eigum við, svo dæmi sé tekið, fjárfestingarsamninga á borð við þann sem gerður var um kísilver á Bakka, álverið hjá Fjarðaáli og fleiri dæmi nokkra áratugi aftur í tímann, allt aftur í álverið í Straumsvík. Það eru skattalegu hvatarnir sem stjórnvöld hafa einkum horft til.

Ég held að það sé alveg tímabært að velta því fyrir sér hvort við ættum að velta betur fyrir okkur möguleikanum á skattalegum hvata vegna mannauðs, og segja einfaldlega: Við erum tilbúin til að gera ívilnanir, ekki bara til þess að laða til landsins innflutning á stáli og bárujárni og vélum og tækjum og tólum til að fara í framleiðslu, heldur líka til að fá til landsins hugvit, fá til landsins sérstaka þekkingu. Hversu langt værum við tilbúin til að ganga í því? Ég hef lagt fyrir þingið og fengið samþykktar reglur sem draga sérfræðinga til landsins með ívilnunum í tekjuskatti en það má velta því fyrir sér hvort við göngum þar nógu langt og hvort við ættum að ganga lengra.

Varðandi opinberu störfin verð ég bara að segja að þau eru ekki ein og sér lausn á efnahagskreppunni. Það er það sem ég á við þegar menn koma með það sem svar við efnahagsástandinu að fjölga bara opinberum starfsmönnum. Opinbera starfsemin geymir gríðarleg verðmæti fyrir samfélagið og allur sá mannauður sem þar starfar. (Forseti hringir.) En það er ekki lausn á efnahagskreppunni, ekki einkenni lausnarinnar, að það skorti á að fjölga opinberum starfsmönnum. Það hefur verið minn punktur þegar ég og hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson höfum verið að ræða þetta.