150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[16:32]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég er ekki með nokkrum hætti að draga úr mikilvægi almenningssamgangna. Sjálfur þekki ég þær ágætlega hér á landi og í þeim erlendu borgum sem ég hef búið í. Þær eru nokkrar. En spurningin er um forgangsröðun og áherslur. Ég dreg ekki í efa góðan hug hv. þingmanns til Sundabrautar. En verkin sýna merkin, af ávöxtunum skuluð þið þekkja þá, stendur þar. Við sjáum það af hálfu borgaryfirvalda, þar sem Samfylkingin hefur verið leiðandi flokkur, að gripið hefur verið til ýmiss konar ákvarðana og aðgerða sem torvelda Sundabrautina, þar á meðal inni í Vogahverfi, eins og komið hefur fram í fréttum. Sömuleiðis hefur komið fram í fréttum að þannig hefur verið gengið fram í þessu máli að vegamálastjóri hefur sent erindi til borgaryfirvalda um þetta þar sem hann lýsir því að þarna sé búið að baka þessu verkefni gífurlega mikinn kostnað, það verði miklu dýrara að leggja þessa línu.

Ég spyr aftur: Er hv. þingmaður sáttur við þessa stefnu og sannfærður um að í raun og veru sé einhver áhersla á Sundabrautina af hálfu borgarstjórnarmeirihlutans í Reykjavík?